Tap gegn Stjörnunni – lokaleikurinn á laugardag

 

Þór/KA fékk skell í Boganum í frestuðum leik á mánudag. Mismikið undir hjá liðunum. Stelpurnar mæta KR-ingum á útivelli í lokaumferðinni á laugardag kl. 14.

Segja má að eðli leiksins hafi verið mjög ólíkt fyrir liðin þegar þau mættust í Boganum því eftir að Valur vann Aftureldingu á laugardag var ljóst að Þór/KA var ekki lengur í neinni fallhættu, Afturelding þegar fallnar niður um deild. Á sunnudag tapaði Breiðablik sínum leik í 17. umferðinni og því ljóst að Stjarnan gat komið sér upp í 2. sætið með sigri, en það sæti er gríðarlega mikilvægt því það veitir rétt til þátttöku í forkeppni Meistaradeildarinnar á næsta ári.

Stjarnan komst yfir mjög snemma í leiknum og bætti við tveimur mörkum til viðbótar í fyrri hálfleiknum. Þriggja marka forysta gestanna í leikhléi og sigurinn aldrei í hættu. Eitt mark til viðbótar kom frá gestunum í seinni hálfleiknum og niðurstaðan 0-4 tap hjá Þór/KA. Skellur eftir gott gengi í undanförnum leikjum, en í sjálfu sér ekki að miklu að keppa hjá Þór/KA, öðru en að ljúka mótinu af krafti.

Eftir 17. umferðina er Þór/KA í 7. sæti deildarinnar og kemst ekki ofar, hvernig sem lokaleikurinn fer. Þór/KA hefur 17 stig, einu stigi meira en Keflavík. Þór/KA mætir KR á útivelli á laugardag kl. 14, en á sama tíma taka Keflvíkingar á móti Stjörnunni. Mikilvægt að ná sigri í Vesturbænum, fara í 20 stig og halda 7. sætinu.

Leikur KR og Þórs/KA hefst kl. 14 á laugardag, eins og allir leikirnir í umferðinni.