Þór/KA - ÍBV: FRÍTT INN!

Nú er loksins aftur komið að leik hjá okkur í Bestu deildinni. Þór/KA tekur á móti ÍBV á morgun, miðvikudaginn 14. september kl. 16:45.

Nú eru um þrjár vikur frá síðasta leik og því að sjálfsögðu eftirvænting að komast aftur af æfingasvæðinu út á völlinn til að spila alvöru leiki og nú eru framundan fjórir mikilvægir leikir fyrir Þór/KA í baráttu við önnur lið um að halda sér í deildinni. Þannig er staðan.

Mótherjinn á miðvikudaginn er lið ÍBV sem situr í 6. sæti fyrir þennan leik með 22 stig. Þór/KA er enn í 8. sætinu, hefur náð sér í 13 stig.

Fyrri leikur liðanna í sumar var ótrúlegur svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þór/KA hafði náð þriggja marka forystu eftir um það bil hálftíma, en lokatölur urðu 5-4 fyrir ÍBV.

Frítt inn í boði stuðningsmanns

Eins og margoft hefur komið fram á samfélagsmiðlum verður frítt á þennan heimaleik eins og síðast, í boði stuðningsmanns félagsins. Árskortshafar fá að auki frían hamborgara – sem öll önnur fá auðvitað á góðu verði.

Stelpurnar þurfa öflugan stuðning úr stúkunni. Akureyringar eru hvattir til að mæta og láta vel í sér heyra.

Verðskuldaður sigur gegn Þrótti

Í síðasta leik fyrir hlé tókst Þór/KA með mikilli baráttu og samheldni innan liðsins að ná sér í þrjú stig með sigri á Þrótti. Verðskuldaður sigur þar sem María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði eina mark leiksins eftir góða sókn upp hægri kantinn og fyrirgjöf frá Margréti Árnadóttur. Vissulega hefði verið gaman að sjá viku seinna hvaða áhrif þessi sigur hafði á leikmennina, fá næsta leik aftur og halda taktinum, en þess í stað hefur liðið beðið í 18 daga eftir næsta leik. Tíminn auðvitað notaður vel til æfinga og vonandi fáum við að sjá sama kraft í leik okkar liðs og í síðasta leik.

Þriggja lotu tímabil

Óhætt er að segja að leikjadagskrá tímabilsins í heild hafi harla óvenjuleg. Fyrst var spilað mjög þétt frá lok apríl fram í júní, síðan langt hlé vegna EM, nokkrir leikir eftir EM og svo aftur hlé vegna bikarúrslitaleiks og landsleikja, auk þess sem þessi leikur var færður um nokkra daga vegna annarra breytinga á leikjadagskrá deildarinnar.

Tímabilið er þannig eiginlega í þremur lotum með tveimur löngum hléum á milli og lítur svona út hjá okkar liði:

  • 51 dagur, 12 leikir, 27. apríl til 18. júní – leikur á rúmlega fjögurra daga fresti.
  • 46 dagar án leiks, 19. júní til 3. ágúst
  • 20 dagar, fjórir leikir, 4.-23. ágúst
  • 21 dagur án leiks, 24. ágúst til 13. september
  • 17 dagar, fjórir leikir, 14. september til 1. október.
  • Einnig mætti orða það þannig að liðið hafi spilað fjóra keppnisleiki á 88 dögum frá 19. júní til 13. september.