Þór/KA-KR - leik frestað til kl. 19

Athugið: Leik frestað til kl. 19.
Athugið: Leik frestað til kl. 19.

 

Þór/KA tekur á móti KR í síðustu umferð fyrri hluta Bestu deildarinnar. Leikurinn átti að hefjast kl. 18, en hefur verið frestað til kl. 19 vegna seinkunar á flugi hjá gestunum.

Fyrir leikinn hefur Þór/KA unnið þrjá leiki í deildinni, situr í 7. sæti deildarinnar með níu stig. KR er hins vegar með einn sigur og er í botnsætinu með þrjú stig. 

Staðan í deildinni, leikjadagskrá og úrslit leik á vef KSÍ.

 Þessi lið hafa mæst 28 sinnum í efstu deild og hefur Þór/KA 15 sinnum haft sigur á móti tíu sigrum KR-inga. Liðin mættust fyrst í efstu deild fyrir næstum nákvæmlega 22 árum, þann 13. júní árið 2000. KR sigraði í þeim leik, eins og reyndar í átta fyrstu viðureignum liðanna í efstu deild. Fyrsti sigur Þórs/KA gegn KR í efstu deild kom í júní 2009.

Ef litið er á viðureignir liðanna í öllum mótum eru þær samtals 35. Þar af hefur Þór/KA unnið 18 sinnum, en KR 13 sinnum.

Leikurinn í kvöld er báðum liðum mjög mikilvægur. KR er í fallsæti og þarf sárlega á stigum að halda. Þór/KA getur farið í 12 stig með sigri og slitið sig aðeins meira frá botnslagnum en nú er. 

Upphitun fyrir leikinn verður í Hamri og auðvitað í sólinni á pallinum frá kl. 18, þar sem í boði verða Goðapylsur og drykkir á hagstæðu verði. Tilvalið að koma saman og ræða málin, jafnvel hitta þjálfarana örlítið fyrir leik.

Stuðningur við stelpurnar skiptir máli og því hvetjum við Akureyringa til að mæta í stúkuna og styðja stelpurnar. Öflugur stuðningur úr stúkunni skiptir máli - það hefur margsýnt sig.