Þór/KA mætir FH í dag

Þór/KA fær FH í heimsókn á Þórsvöllinn í dag og hefst leikurinn kl. 18:30. Leikurinn er í sjöttu umferð Bestu deildarinnar og þriðji heimaleikur liðsins á þremur völlum það sem af er móti.

Þessi lið hafa mæst 20 sinnum í efstu deild og Þór/KA oftast haft betur, unnið 15 leiki, þrisvar hefur orðið jafntefli og tvisvar hefur FH sigrað. Markatalan er Þór/KA einnig mjög í hag þar sem liðið hefur þrisvar unnið með sex marka mun eða meira. Eftirminnilegasta viðureign þessara liða er mögulega haustið 2017 þegar Þór/KA þurfti sigur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Sá sigur kom að lokum, en mörkin tvö í 2-0 sigri létu þó bíða eftir sér þar til á 74. og 78. mínútu. Sandra María Jessen skoraði einmitt fyrra markið við mikinn fögnuð í troðfullri stúkunni á Þórsvellinum.

Liðin mættust síðast í efstu deild sumarið 2020, en FH féll úr deildinni um haustið og spilaði í Lengjudileinni 2021 og 2022. Þessi lið mættust hins vegar í bikarkeppninni sumarið 2021 og þá hafði FH betur eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Fjórir leikmenn sem spilað hafa fyrir Þór/KA eru nú hjá FH, Arna Eiríksdóttir, sem er á láni frá Val, Colleen Kennedy, Shaina Ashouri og Vigdís Edda Friðriksdóttir.

Upphitun verður í geggjuðu grillveðri á pallinum við Hamar, borgari og kaldur, kveikt í grillinu um eða upp úr kl. 17.