Þór/KA semur við Allie Augur, bandarískan markvörð

Þór/KA hefur samið við bandarískan markvörð, Allie Augur, um að leika með liðinu á komandi tímabili.

Allie hóf háskólaferil sinn í fótboltanum í Boston College þar sem hún spilaði í tvö ár, samtals 29 leiki, áður en hún skipti yfir í Georgetown University í Washington DC þar sem hún spilaði 53 leiki. Hún kemur upphaflega frá Northford í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum.

„Fyrstu viðbrögð voru spenna blönduð með forvitni,“ segir Allie, spurð um væntanlega komu sína til Íslands og í Bestu deildina. „Marga leikmenn dreymir um að spila í atvinnumennsku erlendis og mér fannst Ísland vera einstakt og merkilegt tækifæri. Ég var spennt fyrir áskoruninni við að laga mig að nýju landi, nýjum leikstíl og nýju umhverfi. Þegar ég fékk meiri upplýsingar um deildina og knattspyrnuna á Íslandi varð spennan bara meiri,“ segir Allie.

Allie Augur í leik með háskólaliði sínu, Georgetown University í Washington DC.

Allie kveðst leggja aðaláherslu á að leggja eins mikið af mörkum og hún mögulega geti til að liðið nái árangri og hjálpa við að ná þeim markmiðum sem sett eru í upphafi tímabils. „Ég hef trú á að það að spila á hæsta stigi viku eftir viku, læra af liðfélögunum og þjálfarateyminu og laga mig að kröfum deildarinnar muni gera mér kleift að vaxa bæði sem einstaklingur og leikmaður.“

Aðalþjálfari hennar í háskóla, Dave Nolan, var í lykilhlutverki við að koma á sambandi við Þór/KA að hennar sögn. „Hann hafði trú á því að þetta félag myndi henta mér vel og hjálpaði við að koma á samtölum okkar á milli, sem mjög fljótt varð að mjög spennandi tækifæri,“ segir Allie um tilurð þess að hún komst í samband við Þór/KA. Hún kveðst leggja mikið á sig sem leikmaður, vera keppnismanneskja sem leggur stolt í verkefnin, spili af aga fyrir varnarleik liðsins og vinni í smáatriðunum sem hjálpa liðinu við að ná árangri.

Stjórn Þórs/KA býður Allie Augur velkomna til liðs við félagið.