Þór/KA semur við Erin Fleury, bandarískan sóknarmann

Stjórn Þórs/KA hefur samið við bandaríska knattspyrnukonu, Erin Fleury, um að leika með liðinu á komandi tímabili.

Erin er sóknarmaður og kemur til félagsins eftir að hafa spilað með háskólaliðum í Syracuse í New York-ríki og nú síðast Auburn í Texas í Bandaríkjunum.

Erin er frá Manchester í New Hampshire þar sem hún hóf knattspyrnuferilinn. Hún spilaði með háskólaliði Syracuse-háskólans í New York 2021-2023. Eftir það samdi hún við Florida State-háskólann, mjög öflugan íþróttaskóla, þar sem hún spilaði sýningarleiki vorið 2025 áður en hún ákvað að skipta yfir í Auburn University í Texas þar sem hún spilaði með Auburn Tigers.

Erin Fleury í leik með háskólaliði sínu í Texas í Bandaríkjunum, Auburn Tigers. 

Erin kveðst hafa orðið mjög spennt og glöð þegar þetta tækifæri kom til. „Þegar tækifærið til að spila á Íslandi bauðst fylltist ég spennu og gleði. Möguleikinn á að spila í efstu deild á Íslandi og vaxa bæði sem leikmaður og manneskja erlendis ýtti mjög við mér. Þetta er einstakt tækifæri til að takast á við áskoranir á hærra stigi á sama tíma og ég tek nýrri menningu og umhverfi opnum örmum,“ segir hún, spurð um væntanlega komu sína til Íslands.

Erin er líkamlega sterkur leikmaður og kveðst vera mikil keppnismanneskja með óþrjótandi vilja til að vinna. „Ég legg stolt mitt í baráttu og vilja til að gera hvað sem þarf til að liðið nái árangri. Ég hef sterka sýn í sóknarleiknum sem gerir mér kleift að skapa tækifæri fyrir bæði mig sjálfa og liðsfélagana,“ segir Erin Fleury.

Stjórn Þórs/KA býður Erin Fleury velkomna til félagsins.