Þór/KA semur við Macron á Íslandi

Stjórn Þórs/KA hefur gert fatnaðarsamning við íþróttavöruframleiðandann Macron til næstu fjögurra ára. Þór/KA vörur verða fáanlegar í Msport í Kaupangi og í vefverslun.

Leikmenn í öllum flokkum Þórs/KA – meistaraflokki, 2. flokki og 3. flokki – munu því klæðast Macron-æfingafatnaði næstu árin. Macron er ört vaxandi íþróttavöruframleiðandi með höfuðstöðvar í Bologna á Ítalíu.

Með samningnum lýkur fjögurra ára tímabili okkar í Nike-fatnaði, en Þór/KA hafði þar á undan notað Hummel-fatnað í fjölda ára, síðustu árin í gegnum Sport 24, en áður í gegnum forvera þess, Toppmenn og sport, og viljum við í Þór/KA nota tækifærið og þakka þessum fyrirtækjum og starfsfólki þess gott samstarf til fjölda ára.

Unnið er að vali á fatnaði og verður æfingafatnaður vonandi klár í sölu um eða upp úr miðjum nóvember. Aðdáendur og stuðningsfólk, jafnt og iðkendur, geta því gengið að fatnaði merktum Þór/KA í Msport í Kaupangi og í nýrri vefverslun sem sett hefur verið upp á vegum Macron á Íslandi, macronnordurland.is, þegar vörulínan okkar verður klár.

Það verður hins vegar aðeins lengri bið eftir sjálfum keppnistreyjunum, en nú stendur yfir hönnunarferli og val á vörulínum. Við munum að sjálfsögðu kynna vel hér á heimasíðunni og samfélagsmiðlum okkar þegar nýju keppnistreyjurnar koma í Msport og vefverslunina, en fljótlega verður æfingafatnaður í boði – og auðvitað tilvalinn í jólapakkana.