Þór/KA tekur á móti Selfyssingum

Hulda Ósk Jónsdóttir í baráttu við varnarmann Selfoss í leik liðanna í Boganum í maí í fyrra. Selfos…
Hulda Ósk Jónsdóttir í baráttu við varnarmann Selfoss í leik liðanna í Boganum í maí í fyrra. Selfoss fór þar með sigur af hólmi. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

 

Þór/KA tekur á móti liði Selfoss í 4. umferð Bestu deildarinnar kl. 14 á morgun, laugardaginn 14. maí. Vakin er athygli á breyttri tímasetningu, en upphaflega var leikurinn á dagskrá kl. 16.

Eitt stig skilur liðin að fyrir leikinn, en Selfyssingar eru á toppnum með sjö stig, hafa unnið Aftureldingu og ÍBV, en gerðu jafntefli við Þrótt. Þór/KA er með sex stig eins og þrjú önnur lið. Öll liðin í deildinni hafa tapað leik eða leikjum nema Selfoss. Þór/KA tapaði gegn Breiðabliki í fyrstu umferðinni, en hefur síðan þá sigrað Val og Aftureldingu.

Miðasala á leikinn er í Stubb-appinu og við hlið. Árskort verða einnig til sölu við hliðið og þar verður hægt að sækja árskort sem nú þegar hafa verið greidd.

Miðaverð á leikinn er 2.000 krónur fyrir fullorðna.

Dagurinn á morgun er vissulega pakkaður af alls konar viðburðum, bæði á íþróttasviðinu og í öðru, en við treystum á að okkar fólk mæti í stúkuna og hvetji stelpurnar. Eins og margoft hefur verið sagt hér á þessum vettvangi, það skiptir máli fyrir liðið að heyra í okkur í stúkunni.

Þór/KA hefur oftar unnið

Þessi lið hafa mæst 18 sinnum í efstu deild frá 2012. Þór/KA hefur unnið níu sinnum, fjórum sinnum hefur orðið jafntefli og fimm sinnum hafa Selfyssingar unnið.

Tiffany McCarty, sem nú leikur í framlínunni hjá Þór/KA, var leikmaður Selfoss sumarið 2020 - og skoraði reyndar seinna mark liðsins í 2-1 sigri gegn Þór/KA á Selfossi í júlí það ár.

Hér má sjá breytingar sem orðið hafa á liði Selfoss frá síðasta tímabili, en þetta er skjáskot af mbl.is þar sem farið er yfir breytingar allra liða. Ef smellt er á myndina má sjá alla fréttina á mbl.is um félagaskipti í deildinni.