Þór/KA tekur þátt í Faxaflóamótinu

Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Anita Lind Daníelsdóttir í leik Þórs/KA og Keflavíkur í lokaumferð Ísland…
Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Anita Lind Daníelsdóttir í leik Þórs/KA og Keflavíkur í lokaumferð Íslandsmótsins 2021. Þessi lið munu mætast í lokaleik Faxaflóamótsins í byrjun febrúar.
Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

 

Það hefur löngum háð Þór/KA á undirbúningstímabilinu að fá nægilega marga leiki við lið af svipuðum styrkleika.

Nú verður bætt úr því þar sem liðið mun taka þátt í Faxaflóamótinu ásamt liðum Aftureldingar, Hauka, Keflavíkur og Stjörnunnar.

Tvær helgarferðir

Leikjum okkar hefur verið raðað þannig upp að það verða tvær helgarferðir suður. Fyrri tveir leikirnir verða gegn Stjörnunni föstudaginn 14. janúar og Aftureldingu sunnudaginn 16. janúar og síðan gegn Haukum föstudaginn 4. febrúar og Keflavík sunnudaginn 6. febrúar.

Þessir leikdagar eru svo auðvitað háðir því, eins og svo margt annað, að ekki þurfi að fresta vegna covid.

Mótið hafið

Mótið hófst í gær þegar Stjarnan og Keflavík mættust. Stjarnan sigraði 2-1 og skoraði fyrrverandi leikmaður okkar, Heiða Ragney Viðarsdóttir, annað marka Stjörnunnar. Haukar og Afturelding mætast í dag.

Leikjadagskrá, stöðu og úrslit leikja má sjá hér á vef KSÍ.