Þriðja lota að hefjast hjá 3. flokki

Lokakaflinn í Íslandsmótinu í 3. flokki er að hefjast. Þór/KA-liðin, A1 og A2, eiga heimaleiki núna í vikunni.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni var fyrirkomulagi Íslandsmótsins í 3. flokki breytt fyrir þetta tímabil og er keppt í þremur lotum þar sem lið geta færst upp eða niður á milli riðla (deilda) eftir árangri í hverri lotu.

A-liðin okkar tvö hófu keppni í A- og C-riðli. Skemmst er frá því að segja að A1 vann A-riðilinn með nokkrum yfirburðum, bæði í 1. og 2. lotu og er því að sjálfsögðu áfram í A-riðli þegar keppni í 3. lotu hefst. Segja má að það sé endaspretturinn að Íslandsmeistaratitli, en liðið sem vinnur lotu 3 verður Íslandsmeistari. Lið A2 hóf keppni í C-riðli og vann sig upp í B, var síðan aðeins örfáum stigum frá því að vinna sig upp í A.

Heimaleikir á þriðjudag og miðvikudag

Þór/KA2 hefur leik í 3. lotunni í B-riðli þegar liðið tekur á móti Fylki á KA-vellinum kl. 15 á morgun, þriðjudaginn 9. ágúst. Keppinautar Þórs/KA2 í B-riðlinum eru Austurland, Fylkir, Grótta/KR, HK, ÍBV og Tindastóll/Hvöt/Kormákur. Spiluð er einföld umferð þannig að hver lið spilar sex leiki.

Leikjadagskrá, B-riðill, lota 3, á vef KSÍ.

Þór/KA1 hefur leik í 3. lotunni þegar liðið fær Þrótt í heimsókn í Bogann á miðvikudag, 10. ágúst, og hefst sá leikur kl. 15. Keppinautar okkar í A-riðli eru Breiðablik/Augnablik, FH/ÍH, Haukar/KÁ, Stjarnan/Álftanes, Valur/KH, Víkingur og Þróttur.

Leikjadagskrá, A-riðill, lota 3, á vef KSÍ.

Tveir sigrar fyrir sunnan um helgina

Þriðja liðið frá Þór/KA keppir í Íslandsmóti B-liða og sótti sex stig suður um liðna helgi með 4-0 sigrum gegn Val/KH og Gróttu/KR. Þór/KA er nú í 2. sæti í keppni B-liða með 16 stig að loknum átta leikjum, en FH er í efsta sætinu með 24 stig. Liðin eiga eftir að leika fjóra leiki.

Staða, úrslit og leikjadagsrká á vef KSÍ.