Þriðji sigurinn hjá U19 og Ísland í A-deild

 

Jakobína Hjörvarsdóttir var í byrjunarliðinu og lagði upp mark í 3-0 sigri íslenska liðsins gegn gestgjöfunum í Litháen. Ísland fer upp í A-deild og næsta stig riðlakeppninnar fyrir lokamót EM.

Ísland hafði unnið báða leiki sína fram til þessa á mótinu og skiptu úrslitin í morgun engu máli því liðið hafði þegar tryggt sér sigur í riðlinum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik tókst íslenska liðinu loksins að brjóta ísinn þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleiknum og þá komu mörkin eins og á færibandi. Fyrst var það Sædís Rún Heiðarsdóttir sem skoraði beint úr hornspyrnu á 64. mínútu. Aðeins um þremur mínútum sienna má segja að Jakobína hafi lagt upp annað mark Íslands, en hún átti þá sendingu inn á markteginn frá vinstri kanti. Varnarmaður Litháens tók á móti boltanum og ætlaði að hreinsa, en ekki vildi betur en svo að hún sendi hann í eigið mark. Þriðja markið kom svo á 74. mínútu þegar Amelía Rún Fjeldsted skoraði eftir hornspyrnu frá Sædísi.

Eins og áður hefur komið fram hér þýðir sigur Íslands í þessum undanriðli að við förum upp í A-deild og mætum sterkari liðum í riðlakeppni í vor – líklegast í mars – þar sem 28 þjóðir bítast um sjö laus sæti í lokakeppni EM sem fram fer í júlí. Keppnin í mars verður í sjö fjögurra liða riðlum og kemst aðeins sigurlið hvers riðils áfram í lokamótið.

Það þarf engin geimvísindi til að álykta að íslenska liðið var það langsterkasta í þessum undanriðli. Tölurnar tala sínu máli, þrír sigrar, 8-0, 4-0 og 3-0. Varla hægt að segja að andstæðingarnir hafi ógnað marki Íslands í leikjunum þremur.

Þær Ísfold Marý og Jakobína mega vera stoltar af sínu framlagi til liðsins. Jakobína var þrisvar í byrjunarliðinu og Ísfold tvisvar. Báðar áttu stoðsendingu á mótinu. Jakobína spilaði 251 mínútu og Ísfold 161 mínútu.