Karfan er tóm.
Þór/KA og Völsungur hafa samið um að Völsungur fái þrjá samningsbundna leikmenn Þórs/KA á lánssamningi út tímabilið. Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Eva S. Dolina-Sokolowska og Hildur Anna Birgisdóttir verða í röðum Völsungs frá og með morgundeginum út yfirstandandi tímabil.
Hildur Anna Birgisdóttir (2007) hefur verið á samningi hjá Þór/KA frá 2024 á að baki 35 meistaraflokksleiki með Þór/KA, þar af 25 í Bestu deildinni þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Hildur Anna spilar á miðjunni og hefur komið við sögu í sex leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar og einum í Mjólkurbikarnum, ásamt leikjum í Lengjubikarnum í vetur.
Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir (2008) hefur spilað átta leiki með meistaraflokki Þórs/KA, þar af einn í Bestu deildinni. Hún hefur komið við sögu í einum leik í Bestu deildinni í sumar og tveimur í Mjólkurbikarnum, ásamt leikjum í Lengjubikarnum í vetur. Emelía hefur spilað sem bakvörður og kantmaður.
Eva S. Dolina-Sokolowska (2008) á að baki fimm meistaraflokksleiki með Þór/KA, þar af tvo í Bestu deildinni. Hún hefur ekki komið við sögu í leikjum sumarsins, en spilaði þrjá leiki í Lengjubikarnum í vetur. Hún spilaði sína fyrstu leiki í Bestu deildinni í lok tímabils í fyrra.
Hildur Anna hefur verið á samningi hjá Þór/KA í rúmt ár, en þær Emelía og Eva skrifuðu nýlega undir sinn fyrsta samning við félagið.
Völsungur er í toppbaráttu 2. deildar, er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 21 stig og mætir toppliði Selfoss í Mærudagsleiknum á föstudag. Völsungur verður ásamt Selfossi, ÍH og Fjölni í efsta hluta 2. deildar, A-úrslitum, en liðið á eftir tvo leiki í deildinni áður en henni verður skipt upp.