Þrjú stig í pokann!

Einbeitingin leynir sér ekki fyrir leikinn í gær. Mynd: Eiríkur Sigurðsson
Einbeitingin leynir sér ekki fyrir leikinn í gær. Mynd: Eiríkur Sigurðsson

Þór/KA sótti þrjú stig til Keflavíkur í 16. umferð Bestu deildarinnar í gær. Stelpurnar buðu áhorfendum upp á 3-1 sigur og glæsimark frá kornungum leikmanni.

Það viðraði ekki beint vel til knattspyrnu á Keflavíkurvelli í gær, en stelpurnar létu það ekki mikið á sig fá. Stundum skemmdi vindurinn fyrir, stundum hjálpaði hann og það á auðvitað við um bæði lið.

Fyrri hálfleikur var dálítið kaflaskiptur. Þór/KA byrjaði betur og sótti meira í upphafi, en eftir nokkurn tíma kom kafli þar sem Keflavík sótti í sig veðrið.

Þegar stutt var eftir af fyrri hálfleiknum varð vendipunktur – eða vendipunktar – í leiknum, tvö mörk frá Þór/KA á nokkrum mínútum.

Pressa og glæsimark í lok fyrrihálfleiks

Fyrsta markið skoraði Margrét Árnadóttir, en hún var snögg að lesa í stöðuna þegar María Catharina og Sandra María pressuðu varnarmenn Keflavíkur sem leiddi til slæmrar sendingar til baka. Margrét komst inn í sendinguna, lék framhjá markverði Keflavíkur og skoraði.

Aðeins um fjórum mínútum síðar fékk Þór/KA hornspyrnu. Andrea Mist tók hana og boltinn barst til Söndru Maríu á nærstönginni. Hún skallaði boltann út í teiginn þar sem Ísfold Marý Sigtryggsdóttir kom og þrusaði honum upp í markhornið hægra megin. Stórglæsilegt mark hjá Ísfold Marý og hennar fyrsta í Bestu deildinni.

Góð forysta þegar liðin héldu til búningsklefa í leikhléinu. Enn betra að við létum kné fylgja kviði strax í upphafi seinni hálfleiksins þegar Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði úr markteignum eftir hornspyrnu og smá atgang í teignum.

Keflvíkingum tókst að minnka muninn þegar um 25 mínútur voru til leiksloka minnkuðu Keflvíkingar muninn. Það mark kom eftir hornspyrnu og þvögu í teignum þar sem leikmenn Keflavíkur röðuðu sér í kringum Hörpu í markinu og ein þeirra braut augljóslega á henni. Markið stóð engu að síður.

Seinni hófst eins og fyrri endaði

Þór/KA lék á móti vindi (á ská) í seinni hálfleiknum og tók það augljóslega sinn toll þegar langt var liðið á seinni hálfleikinn. Með mikilli baráttu og sigurvilja tókst stelpunum þó að halda út, leyfðu ekki fleiri mörk frá heimastelpum. Litlu munaði að Sandra María bætti við fjórða markinu í blálokin þegar Steingerður Snorradóttir, sem hafði komið inn á sem varamaður á 88. Mínútu komst upp vinstra megin og renndi boltanum fyrir markið, en Sandra sendi boltann rétt framhjá markinu.

Þór/KA vann þennan leik verðskuldað og kom sér af mesta hættusvæðinu í neðri hlutadeildarinnar. Með sigrinum mjakaði Þór/KA sér upp um eitt sæti, í 7. sætið þar sem Keflavík sat áður. Þór/KA hefur nú 17 stig, Keflavík 16 og Afturelding 12 stig í efra fallsætinu.

Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef KSÍ.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Mörkin mátti m.a. sjá í íþróttafréttum Sjónvarpsins í gærkvöld - okkar leikur byrjar á 2:47 mín. í þættinum.

Frítt á síðasta heimaleikinn

Næsti leikur liðsins og jafnframt síðasti heimaleikur sumarsins verður sunnudaginn 25. september kl. 14 þegar við fáum lið Stjörnunnar í heimsókn. Frítt verður á þann leik eins og tvo þá síðustu á heimavelli.

Síðasti leikur Þór/KA á tímabilinu verður síðan gegn KR á útivelli, en KR-ingar sitja í neðsta sæti deildarinnar og eiga ekki lengur möguleika á að halda sér í deildinni.

Klárar í slaginn. Mynd: Eiríkur Sigurðsson.