Þroskandi ár í atvinnumennsku - spennt fyrir landsliðinu

- - -
- - -

María Catharina Ólafsdóttir Gros er nýliði í A-landsliðshópnum, valin í hópinn í fyrsta skipti fyrir leikina tvo gegn Norður-Írlandi. Fyrsta innkoman verður að bíða betri tíma því María kom ekki við sögu í leikjunum tveimur, en áður en hún hélt til móts við landsliðið heyrðum við í henni hljóðið um landsliðsvalið, ferilinn og fótboltann í þremur löndum og stöðu liðsins hennar í harðri baráttu við að forðast fall úr sænsku úrvalsdeildinni.

Lítum fyrst snöggt á ferilinn. María spilar fyrir Linköping FC í Damallsvenskan, sænsku úrvalsdeildinni, og er sem stendur markahæst í liðinu. Áður hafði hún verið hjá Fortuna Sittard í Hollandi og þar áður hjá Celtic FC í Skotlandi. María er Akureyringum auðvitað að góðu kunn því hún er fyrrum leikmaður Þórs/KA, ólst upp á Akureyri og á að baki fjögur og hálft tímabil með meistaraflokki félagsins. Hún spilaði 66 leiki fyrir Þór/KA, þar af 46 í efstu deild og á líka að baki 37 leiki með yngri landsliðum Íslands, U16, U17, U19 og U23.

María er fædd 2003 og kom fyrst við sögu með meistaraflokki Þórs/KA 2018. Að loknu keppnistímabilinu 2021 samdi hún við Celtic FC sem spilar í skosku úrvalsdeildinni, en að loknu fyrsta tímabilinu þar kom hún aftur heim og spilaði fyrir Þór/KA eftir sumargluggann 2022, samtals átta leiki. Hún hélt síðan aftur út í atvinnumennsku og samdi við Fortuna Sittard í Hollandi í ársbyrjun 2023 þar sem hún spilaði í eitt og hálft tímabil. Sumarið 2024 samdi hún við sænska úrvalseildarfélagið Linköping FC og er þar enn.

Segja má að María hafi að vissu leyti „farið heim“ þegar hún samdi við Linköping því móðir hennar, Anna Catharina Gros, er frá Svíþjóð, en pabbi hennar er Ólafur Svansson. Þau notuðu tækifærið og fluttu frá Akureyri til Svíþjóðar á svipuðum tíma og María samdi við Linköping.

Heimasíðuritara telst til að María hafi spilað að minnsta kosti 154 leiki í meistaraflokki í fjórum löndum. Þá á hún einnig að baki leiki í Meistaradeild Evrópu með Celtic og Linköping.

  • Ísland 2018-2021 og 2022
    Þór/KA: 66/10 leikir/mörk, þar af 46/5 í efstu deild.
    Hamrarnir: 3 leikir í 2. deild .
  • Skotland 2021-22
    Celtic FC: 13/1.
  • Holland 2023-24
    Fortuna Sittard: 38/9, þar af 31/5 í efstu deild
  • Svíþjóð 2024-25
    Linköping FC: 37/10, þar af 34/7 í efstu deild


Átján ára til Glasgow í Skotlandi

María var 18 ára þegar hún samdi við Celtic FC í Skotlandi og segir dvölina þar og í Hollandi og Svíþjóð hafa þroskað sig mikið, bæði sem persónu og leikmann og kveðst þakklát fyrir tímann hjá öllum þessum félögum.

María í Celtic FC. Með henni á miðjumyndinni er móðir hennar, Anna Catharina Gros.

„Þegar ég fór til Skotlands var ég mjög ung, var að þroskast og lærði mjög mikið af því að vera á fótboltaæfingum hvern einasta dag. Ég bætti mig mikið í tækninni þegar ég var þar,“ segir María. „Ég þroskaðist mjög mikið á öllum þessum stöðum og núna þegar ég lít til baka þá er ég mjög þakklát fyrir allt. Ég hef lært mjög mikið þótt þetta hafi stundum verið frekar erfitt og maður þurfti að harka af sér.“

Henni fannst ekki mikil viðbrigði hvað fótboltann varðar að fara til Skotlands, alin upp við kröftugan fótbolta og hlaup hér heima og kveðst hafa lært mikið af því. Stærsta breytingin var að æfa á hverjum degi og kveðst hún hafa bætt sig mikið í tækni á þeim tíma sem hún var hjá Celtic.

Öðruvísi fótbolti í Hollandi

Breytingin var meiri þegar hún hélt síðan til Hollands í ársbyrjun 2023. „Mesta sjokkið var þegar ég fór til Hollands. Boltinn þar er einhvern veginn allt öðruvísi en ég var vön. Mér fannst Ísland og Skotland ekkert svo ólík. En í Hollandi var hann allt öðruvísi, hann er einhvern veginn rólegri, öðruvísi horft á boltann þar og ég lærði mjög mikið af því og á tíma mínum þar. Ég er mjög þakklát fyrir þann tíma sem ég var í Hollandi og bætti mig klárlega sem leikmann þar,“ segir María.

Hún segir fótboltann í Svíþjóð vera líkari því sem gerist hér á landi, en gæðin meiri. „Ég hef klárlega lært mikið á öllum þessum stöðum, þjálfurunum líka, en mismunandi eftir löndum og mismunandi eftir þjálfurum. Ég hef verið hjá nokkrum þjálfurum á þessum árum, sérstaklega hérna í Svíþjóð því ég er með þriðja þjálfarann á einu ári núna. Ég hef lært eitthvað hjá öllum og get tekið eitthvað jákvætt frá öllum.“

Þakklæti er Maríu ofarlega í huga þegar hún ræðir veru sína í atvinnumennsku erlendis. „Ég hef þroskast mjög mikið á öllum þessum stöðum og núna þegar ég lít til baka þá er ég mjög þakklát fyrir allt. Ég hef lært mjög mikið þótt þetta hafi stundum verið frekar erfitt og maður þurfti að harka af sér. Ég hef lært svo mikið sem persóna og líka sem leikmaður þannig að ég er mjög þakklát fyrir tímann hjá öllum þessum félögum.“

Markahæst í fallbaráttu

Þegar María samdi við Linköping skrifaði hún undir samning sem gildir út árið 2027 og á hún því tvö tímabil eftir af samningnum. Liðið hefur hins vegar verið í basli í deildinni í sumar og er í næstneðsta sæti deildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið. Linköping er með 15 stig eftir 23 leiki. Rosengård er þar fyrir ofan með 18 stig og svo Brommapojkarna með 20 stig.

Eftir landsleikjahléið mætir Linköping toppliði BC Häcken á útivelli í 2. nóvember, síðan Kristianstad á heimavelli 10. nóvember og svo Rosengård á útivelli í lokaumferðinni 16. nóvember. Enn getur því ýmislegt gerst og María er lítið að pæla í framtíðinni núna.

María fagnar marki með liðsfélögunum hjá Linköping FC. 

„Liðið er ekkert í rosalega góðri stöðu, en ég er einhvern veginn ekkert að pæla beint í framtíðinni. Ég er bara að einbeita mér að því að halda liðinu uppi, gera bara mitt allra besta. Það hjálpar mér til framtíðar og líka liðinu. Svo veit ég bara betur hvað gerist eftir 16. nóvember,“ segir María spurð um stöðu liðsins og framtíðaráformin.

„Ég er ekki mikið að einbeita mér að framtíðinni. Ef við föllum þá tekst ég á við það þegar þar að kemur,“ segir María, en hún hefur vakið athygli með frammistöðu sinni hjá Linköping, er til dæmis markahæst í liðinu og hefur því ekki miklar áhyggjur.

Spennt fyrir tækifæri með landsliðinu

María var valin í landsliðshópinn fyrir leikina tvo gegn Norður-Írlandi í umspili Þjóðadeildar UEFA. Hún hefur beðið þolinmóð og eins og sannri keppnismanneskju sæmir finnst henni að hún hefði getað fengið tækifærið fyrr. Hún kom þó ekki við sögu í leikjunum tveimur, en auðvitað spennandi að hún sé nú loks komin með takkana inn fyrir A-landsliðsdyrnar. 

„Ég er mjög þakklát að fá tækifærið loksins,“ segir María spurð um kallið frá landsliðsþjálfaranum. „Mér finnst ég vera búin að vinna fyrir því. Ég hef verið þolinmóð og finnst kannski að ég hefði getað fengið tækifæri aðeins fyrr, en ekkert sem ég get gert í því núna. Ég er bara mjög þakklát fyrir að fá tækifærið núna og er bara mjög spennt,“ sagði María Catharina Ólafsdóttir Gros í aðdraganda landsleikjanna sem nú eru að baki hjá A-landsliði Íslands.

María ásamt foreldrum sínum, Ólafi Svanssyni og Önnu Catharinu Gros, til vinstri stuttu eftir að hún hóf að leika með Celtic FC í Skotlandi. Myndin til hægri var tekin 10. mars 2019, en þá var María í fyrsta skipti í byrjunarliði með meistaraflokki Þórs/KA.