Þýskaland: Sandra María skoraði tvö í sigri og var maður leiksins

Sandra María Jessen - tvö mörk í kvöld og maður leiksins í fyrsta sigri Kölnarliðsins. Myndirnar eru…
Sandra María Jessen - tvö mörk í kvöld og maður leiksins í fyrsta sigri Kölnarliðsins. Myndirnar eru af Instagram-síðu félagsins.

Sandra María Jessen skoraði í kvöld bæði mörk 1. FC Köln þegar liðið vann 2-1 útisigur á SGS Essen í 4. umferð þýsku Bundesligunnar. 

Sigurinn í kvöld var sá fyrsti sem Kölnarliðið nær í á þessari leiktíð og fyrstu þrjú stigin því áður hafði liðið tapað heima fyrir Leipzig og Wolfsburg og útileik gegn Freiburg, og aðeins skorað eitt mark í fyrstu þremur leikjunum. Það breyttist í kvöld þegar Sandra María kom Köln í forystu með marki á 11. mínútu og bætti svo við öðru marki þremur mínútum síðar. Essen minnkaði muninn í 1-2 á 32. mínútu, en þar við sat og Köln fór með 2-1 sigur af hólmi.

Köln er í 10. sæti deildarinnar af 14 liðum sem spila í Bundesligunni, þýsku úrvalsdeildinni. Liðið er með þrjú stig, eins og Leipzig.

Sandra María var samkvæmt tölfræði sem finna má á úrslitavefsíðum með 8,7 í einkunn og maður leiksins. Hún hefur verið í byrjunarliði Kölnarliðsins í öllum fjórum leikjunum til þessa. 

Vel gert, Sandra!