Tiffany McCarty semur við Þór/KA

Það er skammt stórra högga á milli hjá okkur þessa dagana. Í dag bætist í hópinn okkar bandaríski framherjinn Tiffany Janea McCarty.

Tiffany er reyndur framherji sem félagið bindur miklar vonir við á komandi tímabili. Undanfarið hefur sárlega vantað fleiri mörk til að skila liðinu fleiri stigum og ofar í töfluna og tilkoma Tiffany ætti klárlega að bæta úr því.

Með samningi félagsins við hana, ásamt þeim leikmönnum sem samið hafa við Þór/KA að undanförnu mun leikmannahópurinn á komandi tímabili búa yfir meiri reynslu en undanfarin tvö ár. Inn í hópinn bætast öflugir leikmenn með reynslu úr atvinnumannadeildum erlendis og hér heima, leikmenn sem bæði koma upphaflega úr okkar röðum og að utan.

Jafnvægi aldurs og reynslu í hópinn

Heimasíðuritari heyrði í þjálfurunum eftir að ljóst varð að Tiffany væri á leið til Akureyrar. Þeir lýstu báðir yfir ánægju með að fá Tiffany til liðsins, með reynslu hennar og markaskorun. „Þetta er annað skref í rétta átt fyrir félagið,“ segir Perry Mclachlan. „Við vildum bæta við fleiri mörkum hjá liðinu og Tiffany er leikmaður sem mun án efa skila því til liðsins. Á undanförnum vikum höfum við breyst úr mjög ungum leikmannahópi í það að vera með gott jafnvægi á milli ungra og reyndra leikmanna. Liðið og þjálfararnir hlakka til að vinna með Tiffany ásamt öðrum mikilvægum leikmönnum sem við höfum bætt í hópinn,“ segir Perry.

Jón Stefán Jónsson tekur í sama streng: „Koma Tiffany er mikilvægt púsl í því markmiði að koma ákveðnu jafnvægi á aldurssamsetningu hópsins. Hún kemur ekki bara með gæði heldur gífurlega reynslu sem atvinnumaður og mun hjálpa okkur að efla og kenna okkar ungu stelpum. Ég bind miklar vonir við hana utan vallar, ekki síður en innan vallar og hlakka mikið til að vinna með henni,“ segir Jón Stefán.

Langur ferill vestanhafs

Tiffany er fædd 1990 og hefur áður leikið með Selfossi og Breiðabliki hér á landi, samtals 48 leiki og skorað 22 mörk, þar af 33 í efstu deild og átta Evrópuleiki með Breiðabliki. Hún varð bikarmeistari með liðinu og skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum á liðnu tímabili.

Áður en hún kom til Íslands hafði hún að mestu spilað í heimalandinu, Bandaríkjunum. Á háskólaárunum vestra var hún liðsmaður Florida State Seminoles, þar sem hún spilaði 98 leiki og skoraði 63 mörk á árunum 2008-2012.

Eftir það spilaði hún með nokkrum liðum í bandarísku deildunum, Washington Spirit 2007-2009, Pali Blues 2011, Houston Dash 2014-2015 og FC Kansas City 2016, þaðan sem hún fór til Noregs og spilaði með Medkila IL, sem þá lék í efstu deild. Hún var svo aftur hjá Washington Spirit 2018-2019. Ferill hennar hér á landi hófst með Selfossi vorið 2020, en þar spilaði hún samtals 19 leiki (10 mörk) í deild, bikar og meistarakeppninni. Frá Selfossi fór hún til Breiðabliks og spilaði þar 21 leik (9 mörk) í deild og bikar, ásamt átta leikjum (þrjú mörk) í Meistaradeildinni.

Reynslumesti leikmaður hópsins

Eins og sjá má á listanum hér að neðan býr Tiffany yfir mikilli reynslu, meistaraflokksleikirnir orðnir 148 og háskólaleikirnir 96, eða samtals 246 leikir, sem gerir hana að reyndasta leikmanni liðsins á komandi tímabili.

Háskólaboltinn í Bandaríkjunum: 98
NWSL-deildin í Bandaríkjunum: 92
Noregur: 8
Ísland: 48

Hér má sjá upplýsingar um Tiffany á vef KSÍ.

Tiffany McCarty undirritar samning við Þór/KA fyrr í dag.


Tiffany McCarty verður í treyju númer 14.