Tíu ár í dag!

Ógleymanlegur dagur, ógleymanleg stund. Myndir: Þórir Tryggva.
Ógleymanlegur dagur, ógleymanleg stund. Myndir: Þórir Tryggva.

Fyrir sléttum tíu árum tryggði Þór/KA sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti með sigri á Selfyssingum á Þórsvellinum. Við ætlum að rifja þetta tímabil upp í dag og næstu daga með ýmsum hætti.

Meðal þess sem lesendur mega eiga von á síðar í dag eru skemmtilegir pistlar frá þjálfurunum, Jóhanni Kristni Gunnarssyni og Siguróla Kristjánssyni, jafnvel fleirum.

Hér ætlum við að hefja upprifjunina einfaldlega með nokkrum skemmtilegum myndum sem Þórir Tryggva tók þennan magnaða dag, 4. september 2012 og smá fróðleik. 

Í leiðinni geta lesendur svo einnig rifjað upp mótið með því að skoða stöðutöfluna og leikmannalistann á vef KSÍ.

Pepsi-deildin 2012 - stöðutafla og úrslit leikja.

Þór/KA 2012 - leikmenn.

Eins og sjá má á leikmannalistanum á vef KSÍ tóku átta leikmenn þátt í öllum 18 leikjum liðsins í deildinni og þar af spiluðu fimm leikmenn hverja einustu mínútu í hverjum einasta leik - sem sést ef skoðuð er önnur útgáfa af leikmannalistanum, sjá hér. Ætli megi ekki álykta af þessu að stöðugleiki í leikmannahópi sé vænlegur til árangurs. 

Nokkrar af þeim íslensku stelpum sem unnu þennan Íslandsmeistaratitil með Þór/KA eru enn að spila.

  • Sandra María Jessen var þarna 17 ára og blómstraði heldur betur þetta sumar, skoraði 18 mörk í 18 leikjum, en hún kom aftur til okkar fyrir þetta tímabil eftir nokkur ár í atvinnumennsku erlendis. Hún er sú eina af þeim sem enn spila fótbolta og er í Þór/KA
  • Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem þá var fyrirliði og var valin íþróttakona Akureyrar þetta ár, spilar nú með Val.
  • Lára Einarsdóttir sem nú spilar með HK í Lengjudeildinni, en hún er eini leikmaðurinn sem tók þátt í öllum leikjum liðsins bæði árin sem það hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn, 2012 og 2017.
  • Lillý Rut Hlynsdóttir var 15 ára og kom við sögu í 11 leikjum, en hún er nú hjá Val.
  • Þá kom Oddný Karólína Hafsteinsdóttir við sögu í einum leik með Þór/KA þetta sumar, þá 16 ára, en hún spilar núna með liði Einherja á Vopnafirði í 2. deildinni.
  • Katrín Ásbjörnsdóttir sem kom frá KR fyrir tímabilið, en er nú hjá Stjörnunni.
  • Þórhildur Ólafsdóttir sem kom frá ÍBV og hefur komið við sögu í nokkrum leikjum hjá ÍBV í sumar.
  • Lára, Lillý Rut og Sandra María eru einu leikmennirnir sem spiluðu með Þór/KA bæði árin sem liðið hefur unnið titilinn.


Látum þetta nægja hér og leyfum myndum Þóris Tryggva að rifja upp stemninguna 4. september 2012 með okkur. Myndirnar birtust upphaflega á gamla akureyri.net.