Tólf í landsliðsverkefnum

Hulda Björg Hannesdóttir, fyrirliði Þórs/KA, er ein þeirra sem boðuð hefur verið á æfingar með U23 l…
Hulda Björg Hannesdóttir, fyrirliði Þórs/KA, er ein þeirra sem boðuð hefur verið á æfingar með U23 landsliðinu. Mynd: Þórir Tryggva

 

Frá því að keppnistímabilinu lauk í haust hefur verið nóg að gera hjá fjölmörgum leikmönnum okkar á æfingum með yngri landsliðunum.

Frá október fram í janúar hafa 12 leikmenn verið valdir til æfinga og/eða tekið þátt í leikjum og mótum með U16, U17, U19 og U23 landsliðunum.

Lífi blásið í U23

Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Steingerður Snorradóttir voru allar með U17 landsliðinu í september í undankeppni EM 2022. Kimberley Dóra meiddist reyndar í því móti og Steingerður hefur ekki heldur getað verið með á æfingum U17 landsliðsins síðan þá, en inn í U17 hópinn núna í janúar bættist Angela Mary Helgadóttir. Angela Mary hafði einnig æft með U16 landsliðinu á undanförnum mánuðum, eins og þær Amalía Árnadóttir, Krista Dís Kristinsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir.

Í gær bárust svo fréttir af því að Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Unnur Stefánsdóttir hafi verið valdar í æfingahóp U19 landsliðsins og þær Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir og Saga Líf Sigurðardóttir í æfingahóp U23 landsliðsins.

Milliriðlar fram undan hjá U19 og U17

Ef okkar stelpum gengur vel á æfingum og í leikjum sem fram undan eru með Þór/KA má svo vonandi búast við frekari verkefnum því bæði U17 landsliðið og U19 landsliðið eru á leið til keppni erlendis í mars og apríl í milliriðlum fyrir EM 2022.

Milliriðillinn hjá U17 liðinu verður spilaður 23.-29. mars. Spilað verður á Írlandi, en auk heimaliðsins mætir Ísland þar einnig Finnlandi og Slóvakíu. Eitt lið fer áfram í lokakeppnina sem fram fer í Bosníu og Herzegóvínu 3.-15. maí.

Milliriðillinn hjá U19 liðinu verður spilaður á Englandi 4.-12. apríl þar sem Ísland mætir Belgíu, Englandi og Wales. Eitt lið úr milliriðlinum fer í lokakeppnina í Tékklandi sem fram fer 27. júní til 9. júlí og eitt fellur í B-deild.