U16: Markaregn í tapi á Skaganum

Þór/KA2 hóf leik í annarri lotu í B-riðli Íslandsmótsins í 3. flokki í gær með heimsókn á Skagann þar sem stelpurnar mættu sameiginlegu liði ÍA, Skallagríms og Víkings í Ólafsvík. Mörkunum rigndi, samtals 13 mörk skoruð eða mark á rúmlega sex mínútna fresti.

Heimaliðið hafði 4-2 forystu eftir fyrri hálfleikinn, en okkar lið varð fyrir því óláni að missa eina af velli með rautt spjald (tvö gul) eftir aðeins nokkurra mínútna leik í seinni hálfleiknum. Róðurinn var því erfiður, en þær gáfust þó aldrei upp, minnkuðu muninn í eitt mark einum færri, en heimastúlkur svöruðu og náðu þriggja marka forystu. Okkar stelpur héldu áfram, minnkuðu muninn tvívegis í tvö mörk, en munurinn á endanum þrjú þegar upp var staðið.

ÍA/Skallagrímur/VíkingurÓ - Þór/KA2 8-5 (4-2)