U19 unnu mótið í Portúgal

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir eru á heimleið með U19-landsliðinu eftir að hafa unnið æfingamót í Portúgal.

Ísland vann alla þrjá leiki sína í þessu móti, 4-2 gegn Póllandi, 3-2 gegn Portúgal og svo 4-1 gegn Wales í gær. Þær Ísfold og Jakobína komu inn sem varamenn í seinni hálfleik í fyrsta leiknum, þar sem stutt var frá því að þær spiluðu með Þór/KA í Lengjubikarnum. Jakobína spilaði svo allan leikinn gegn Portúgal og gegn Wales. Ísfold missti af Portúgalsleiknum vegna veikinda, en kom svo inn í byrjunarliðið gegn Wales og spilaði fyrri hálfleikinn.

Þetta æfingamót í Portúgal var liður í undirbúningi liðsins fyrir næsta stig í undankeppni EM 2023, en stelpurnar unnu sem kunnugt er sinn riðil auðveldlega í fyrstu umferð undankeppninnar síðastliðið haust.

Næsta verkefni verður í byrjun apríl þegar stelpurnar mæta liðum Danmerkur, Svíþjóðar og Úkraínu, en sá riðill verður spilaður í Danmörku. Leikirnir verða 5., 8. og 11. apríl.


Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Wales í gær. Jakobína er nr. 3 og Ísfold Marý nr. 14. Myndin er af vef KSÍ.