Úr hugskoti þjálfarans tíu árum síðar

Jóhann Kristinn Gunnarsson hampar Íslandsbikarnum. Mynd: Þórir Tryggva
Jóhann Kristinn Gunnarsson hampar Íslandsbikarnum. Mynd: Þórir Tryggva

Heimasíðan hafði samband við Jóhann Kristin Gunnarsson, sem var á sínu fyrsta ári af fimm sem þjálfari hjá Þór/KA þegar hann stýrði liðinu til fyrsta Íslandsmeistaratitilsins.

Hann fékk frjálsar hendur til upprifjunar, eins langt eða eins stutt og honum hugnaðist. Hér kemur upprifjun hans á sumrinu 2012.

---

Það eru komin tíu ár segirðu!

Það væri auðvitað hægt að fara yfir þetta í löngu máli allt saman og líklega þyrfti ég að hafa Mola mér við hlið til þess að það væri sanngjarnt gagnvart öllu og öllum! Helst Nóa líka. En hafandi nefnt þá meistara þá er best að ítreka enn og aftur hve stór þáttur þeirra í þessu ævintýri var. Þeir voru hvor sem annar (ásamt ótal fleirum auðvitað!) bæði haus og sporður og allt heila móverkið þar á milli í þessum árangri Þór/KA fyrir 10 árum.

Það sem kemur fyrst upp í hugann er andrúmsloftið og umræðan í boltanum í aðdraganda mótsins. Ég man að mér fannst undirbúningstímabilið ganga nokkuð vel og hópurinn okkar æfði vel. Það kom mér endalaust á óvart hvað stelpurnar voru tilbúnar að leggja mikið á sig. En umræðan sem ég nefni kemur til vegna gengis okkar í Lengjubikarnum. Það var fjarri því að vera glæsilegt. Við töpuðum öllum leikjunum og skoruðum bara 3 mörk. Fengum á okkur tæplega 20 minnir mig. Það skrítna er að það var alltaf stígandi í þessu og stelpurnar hættu ekkert að halda áfram að gera það sem við vildum gera. Hin liðin voru bara meira tilbúin en við. Voru komin lengra á þessum tíma.

Hópurinn okkar var skemmtilega samsettur af ungum og ótrúlega efnilegum heimastelpum, reyndum leikmönnum af sömu klakstöðvum (þó aldurinn hafi nú ekki verið hár) og svo komu mjög sterkar viðbætur bæði að sunnan og utan. Breytingin á liðinu milli ára var alveg ótrúleg. Mjög miklar mannabreytingar. Eins og raunin varð þá reyndist þessi breyting á hópnum góð og þrátt fyrir að hafa misst marga sterka leikmenn þá komu gríðarlega öflugar stelpur í staðinn. Þær gerðu svo stelpurnar okkar sem fyrir voru enn betri og baráttan á æfingum var oft ansi skemmtileg.

Tónninn var sleginn strax í Boganum er við lögðum íslandsmeistara Stjörnunnar 3-1 í miklum baráttuleik. Tempóið var svo hátt að bandarísku stelpurnar okkar sögðu að þeim liði eins og þær hefðu verið að vinna borðtennisleik. Það var allt gefið í þetta. Þannig hélst þetta út sumarið! Alltaf allt á fullu.

Næsti leikur var svolítið litaður af þessum fyrsta og við enn pínu í skýjunum. En glæsilegt mark Kaylu tryggði okkur sigur í Vesturbænum.

Við mættum einu sinni illa í leik og það var gegn ÍBV á heimavelli í fyrri umferðinni. Vorum bara ekki nógu vel undirbúin og illa stemmd. Það var eini tapleikurinn það sumarið.

Eftirminnileg eru jafnteflin við Val þetta sumar. Valur var með svakalegt lið. Það var rosalegt að ná stigi á Hlíðarenda í seinni umferðinni eftir að hafa lent 2-0 undir minnir mig. Þær voru með danskan snilling (Johanna Rasmussen) á láni sem spilaði með þeim nokkra leiki. Hún og Dagný Brynjars skoruðu fyrir þær. Gríðarlega sterkt jafntefli þar. Katrín Ásbjörns var drjúg fyrir okkur þetta sumar og minnkaði muninn áður en Lillý jafnaði þegar um 10 mínútur voru eftir. Lillý var í minningunni svona 11 ára þarna.

Stjarnan, Valur, Breiðablik og ÍBV voru alveg gríðarlega sterk þetta ár sem gerði titilinn enn þá sætari. Það er auðvitað alveg heilmikið til í því að við höfum kannski flogið svolítið undir radarinn að einhverju leyti þar sem þessi lið voru svo áberandi og öflug á pappírunum. En í 18 leikja móti átta flestir sig nú áður en langt um líður svo „undir radarinn“ kenningin getur ekki alveg átt við um allt mótið. Við vorum með besta markmanninn í deildinni en Chantel Jones kom ásamt Tahnai og Kaylu frá Bandaríkjunum. Einhverjir vildu meina að við hefðum unnið mótið á markmanninum. Ég ætla nú ekki að eyða neinum tíma í að ræða þá tilgátu sérstaklega. En Chantel skoraði t.a.m. ekkert mark af 53 mörkum okkar þetta sumar. En hún var langbest í sinni stöðu í deildinni! Það er óumdeilt.

Við vorum toppliðið sem enginn skildi. Gott ef þetta var ekki fyrirsögn í Mogganum. Við prentuðum það út og hengdum upp í klefanum. Einhverjir vildu meina að það væri óhugsandi að við værum efst í töflunni. Mögulega var það rétt miðað við þessa umtöluðu „sterkastar á pappírunum“ kenningu. En við vorum góð í því sem við gerðum og hlupum mikið. Við vorum með besta markmanninn, stoðsendingahæsta leikmanninn (Kayla með 23 stoðsendingar) og Sandra María og Katrín skoruðu 30 mörk. Sandra var jöfn Elínu Mettu, 18 mörk hvor, og voru þær markahæstar í deildinni. Arna Sif var besti miðvörðurinn í deildinni þetta sumar og gaman að hún er það enn! Þó ég nefni hér nöfn þá gæti ég auðvitað nefnt allar sem voru með okkur þetta sumar. Það hefði ekki gengið að ná þessum árangri með einhverja farþega.

Eftir gríðarlega sterkan útisigur gegn Breiðabliki í 14. umferðinni, 1-2, þá sáum við að þetta var að fara að gerast. Í höfðinglegu matarboði Blika eftir leik fékk Moli heimsfrægt taugaáfall er því laust niður í hausinn á honum í miðju símtali við Nóa, minnir mig, að stigafjöldinn milli okkar á toppnum og næsta liðs var orðinn þetta mikill. Fáar umferðir eftir. Eftir símtalið var Moli í svitakasti og blikkaði augunum til skiptis eða bara alls ekki. Eldrauður og ég var kominn með símann í hendurnar, tilbúinn að hringja á sjúkrabíl. Hann jafnaði sig nú rétt norðan við Baulu á heimleiðinni.

Í næst síðasta leik sumarsins gegn Selfossi á heimavelli voru allir eiginlega orðnir vissir um hvert stefndi. Selfoss átti bara þokkalegasta tímabil og voru ekkert að fara að falla eða neitt slíkt. En samt vissu eiginlega allir hvað var að fara að gerast í þessum leik. Með sigri vorum við meistarar. Ég man að þegar ég kom frekar snemma um daginn þá voru menn að afferma bíl með sviðinu sem sett er upp þegar verðlaunaafhendingin fer fram. Fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá þetta var hvort ég þyrfti ekki að hjálpa við að drífa þetta aftur upp í bíl ef við myndum tapa. En svo bað ég um að þetta yrði sett einhvers staðar þar sem stelpurnar myndu ekki sjá þegar þær kæmu í leikinn.

Fyrir þennan leik reyndum við að hafa allt eins og gera allt eins og venjulega. Halda öllum á jörðinni og tala ekkert um „hvað ef“. Sjá fyrir sér færið og hvernig þú kemst í það – en ekki hvernig þú ætlar að fagna markinu. Það gekk bara vel og stelpurnar voru gríðarlega „professional“. Það var aðeins titringur í byrjun enda full stúka og þvílík læti! Mig minnir m.a.s. að Selfoss hafi átt fyrsta færið. Líklega Guðmunda, enda var hún alltaf erfið við okkur. En þegar fyrsta markið okkar kom þá var þetta aldrei spurning. Hrikalega eftirminnilegt kvöld og 9-0 sigurinn var síst of stór. Auðvitað var þetta ekkert gaman fyrir Selfoss en eftir að við skoruðum var ekki ráðið við neitt. Það sprakk bara út eitthvað hungur og lykt af fyrsta titli Þór/KA. Það var ekkert hægt að fara að halda aftur af einu eða neinu.

Það er alveg ljóst að þessu kvöldi og þessu tímabili gleymir maður aldrei og ég er alveg gríðarlega stoltur og ánægður að hafa fengið að taka þátt í þessu. Ég minnist með hlýju og þakklæti allra sem ég starfaði með, bæði í stjórn og á „gólfinu“. Allra leikmannanna sem ég fékk að þjálfa í þessu magnaða liði. Frábærir karakterar og stórkostlegar manneskjur allt saman sem maður kynntist þarna vel og á klárlega fyrir vini og kunningja um ókomna tíð. Maður fær bara ryk í augað og hlýtt í hjartað við að rifja upp þennan frábæra tíma!

Áfram Þór/KA!


Skjáskot úr Fréttablaðinu 19. júlí 2012, af timarit.is.