Úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitil B-liða

 

Þór/KA mætir FH/ÍH í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil B-liða í 3. flokki á KA-vellinum á sunnudag kl. 17.

Okkar stelpur tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með því að sigra lið Snæfellsness á miðvikudaginn, 4-1. Andstæðingarnir í úrslitaleiknum verða FH/ÍH, sem unnu Stjörnuna/Álftanes í hinum undanúrslitaleiknum.

Þessi lið voru saman í A-riðli í sumar og hafa því mæst tvisvar áður. FH/ÍH hafði sigur í bæði skiptin, eins og í öllum öðrum leikjum liðsins í riðlinum. FH/ÍH fór í gegnum A-riðilinn með fullt hús stiga, 36 stig úr 12 leikjum. Þór/KA náði þar 2. sætinu með 25 stig, en liðið vann átta leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur. Þessi tvö lið unnu síðan andstæðinga sína í undanúrslitum, tvö efstu liðin úr B-riðlinum, og mætast því í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Eins og með aðra úrslitaleiki var dregið um leikstað og fengu okkar stelpur heimaleik. Leikurinn fer fram á KA-vellinum sunnudaginn 18. september og hefst kl. 17.

Á undan áðurnefndum úrslitaleik á svo okkar lið í A-riðlinum leik gegn Víkingi, en sá leikur hefst kl. 15. A-liðið er í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en verður eins og staðan er núna að treysta á hagstæð úrslit úr leikjum annarra liða.

Þjálfarar 3. flokks eru Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristinsson.