Vel heppnaður páskafótbolti

Glaðbeittur hópur í lok fótboltaskólans. Gerum ráð fyrir að mörg af þessum krökkum hafi áhuga á að e…
Glaðbeittur hópur í lok fótboltaskólans. Gerum ráð fyrir að mörg af þessum krökkum hafi áhuga á að endurtaka leikinn á næsta ári.

 

Yfir 70 stelpur og strákar á aldrinum 7-12 ára fengu leiðsögn hjá stelpunum í Þór/KA í páskafótboltaskólanum sem stelpurnar stóðu fyrir í Boganum í liðinni viku.

Boðið var upp á tveggja tíma æfingar, þrjá daga í röð, mánudag, þriðjudag og miðvikudag í dymbilvikunni.

Fótboltaskólinn er meðal annars liður í fjáröflun leikmanna fyrir æfingaferð til Englands í EM hléinu sem verður á Íslandsmótinu í sumar. Fótboltaskólinn snýst þó auðvitað ekki bara um peninga því markmiðið er að veita krökkum á þessum aldri tækifæri til að fá skemmtilegar aukaæfingar um leið og þau fá að kynnast leikmönnum og komast í tengsl við liðið og félagið. Þátttakendur í fótboltaskólanum komu bæði frá Þór og KA og reyndar fleiri félögum. Án efa voru þarna stelpur sem verða komnar í meistaraflokkshópinn hjá Þór/KA innan nokkurra ára.

Viðbrögðin við fótboltaskólanum komu okkur nokkuð á óvart og þegar leið að fyrsta degi varð ljóst að við gætum ekki tekið á móti öllum sem vildu. Uppselt, plássin fylltust og því varð til biðlisti. Nokkrir krakkar af biðlistanum komust að, en ekki allir. Ástæðan fyrir því að lokað var á skráningu er einfaldlega sú að stelpurnar vildu ekki yfirfylla hópana því það bitnar á upplifun þátttakenda, takmarkar tíma og pláss sem hver og einn þátttakandi fær. Eins og áður sagði, fótboltaskólinn var fjáröflunarverkefni, en snerist alls ekki eingöngu um peninga. Gæði æfinga sem boðið er upp á skipta miklu máli.

Miðað við viðtökur í þetta skipti má allt eins gera ráð fyrir að stelpurnar muni bjóða upp á slíkt á hverju ári. Fótboltaskólinn var ekki bara skemmtileg og góð reynsla fyrir þátttakendur heldur einnig fyrir Þór/KA-stelpurnar sem skipulögðu verkefnið. Reynslan kemur að góðum notum og með breytingu á skipulagi vonumst við til að geta tekið við öllum sem þess óska næst. Það kemur í ljós.

Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á síma á námskeiðinu: Myndaalbúm.