Vonbrigði í vorblíðunni

Frammistaðan og úrslitin ekki eins og vonast var eftir þegar Þór/KA fékk Keflavík í heimsókn í 2. umferð Bestu deildarinnar - en mætingin og stuðningurinn voru þó frábær.

0-1 – Linli Tu (31)
1-1 – Sandra María Jessen (46). Stoðsending: Amalía Árnadóttir.
1-2 – Sandra Voitane (56)

Því miður tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri í fyrstu umferðinni þegar Þór/KA fékk Keflvíkinga í heimsókn í dag. Keflvíkingar skoruðu tvívegis og hirtu öll stigin.

Keflvíkingar komust yfir á 31. mínútu með marki frá Linli Tu. Seinni hálfleikurinn var svo rétt byrjaður, rétt um hálf mínúta liðin, þegar Sandra María Jessen jafnaði eftir stoðsendingu frá Amalíu Árnadóttur. Við það vöknuðu vonir um að liðið næði sér á strik með góðum stuðningi úr stúkunni, en það gekk því miður ekki eftir. Aftur á móti voru það gestirnir sem skoruðu aftur á 56. mínútu. Bæði lið fengu góð færi síðasta hálftímann sem nýttust ekki.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.
Frétt á Akureyri.net (með myndum).

Frammistaðan og úrslitin eru vonbrigði, en ástæða til að nefna sérstaklega hér og þakka fyrir góða mætingu stuðningsfólks og góðan stuðning úr stúkunni. Því miður dugði það ekki til að þessu sinni, en vonandi höldum við áfram að fjölmenna á völlinn til að hvetja liðið áfram.

Næsti leikur er útileikur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum sunnudaginn 7. maí, en næsti heimaleikur verður gegn Breiðabliki 15. maí.


Kolfinna Eik Elínardóttir, Emelía Ósk Kruger og Ísey Ragnarsdóttir spiluðu allar sínar fyrstu mínútur í efstu deild í dag. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Fleiri ungar fá tækifæri

Þrjár af þeim sem komu við sögu í þessum leik voru að spila sínar fyrstu mínútur í efstu deild. Allar höfðu þær tekið þátt í nokkrum leikja liðsins í mótunum á undirbúningstímabilinu. Emelía Ósk Kruger (2006) kom inn og spilaði seinni hálfleikinn eftir að Ísfold Marý fékk höfuðhögg og þurfti að hætta leik. Kolfinna Eik Elínardóttir (2007) spilaði síðustu 20 mínúturnar og Ísey Ragnarsdóttir (2008) tæplega tíu mínútur. Þar með hafa fimm sem fæddar eru 2006-2008 fengið sínar fyrstu mínútur í efstu deild í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Tækifærin eru dýrmæt, en því miður koma þau að hluta til vegna meiðsla reyndari leikmanna.

Sprettur-inn verðlaunar besta leikmann hvors liðs

Sprettir leiksins, besti leikmaður úr hvoru liði í leiknum, fengu gjafabréf frá Sprettinum í leikslok. Það voru þær Vera Varis, markvörður Keflavíkur, sem bjargaði liði sínu í tvígang á lokakaflanum, og Sandra María Jessen fyrirliði, sem skoraði eina mark Þórs/KA í leiknum.


Vera Varis og Sandra María Jessen.


Fjölmenni var á leiknum og góður stuðningur sem ber að þakka fyrir. Um 350 manns mættu á leikinn.



Fyrir leik þarf að sinna ýmsu og ekki víst að þessar þrjár hafi þarna vitað að þær myndu allar spila sínar fyrstu mínútur í efstu deild í dag. Ísey Ragnarsdóttir (2008), Emelía Ósk Kruger (2006) og Kolfinna Eik Elínardóttir (2007).

Þó veðrið væri fallegt var svalt og Kolluteppin okkar koma alltaf að góðum notum, hlý og mjúk. Angela Mary Helgadóttir og Bríet Jóhannsdóttir eru báðar frá vegna meiðsla, en Krista Dís Kristinsdóttir kom óvænt inn í byrjunarliðið þegar ljóst varð skömmu fyrir leik að Karen María Sigurgeirsdóttir gæti ekki byrjað leikinn eins og til stóð.