Jafnt á Ásvöllum

Kalt á bekknum, en Kolluteppin hlýja alltaf, að innan sem utan.
Kalt á bekknum, en Kolluteppin hlýja alltaf, að innan sem utan.
 
Þór/KA og Haukar gerðu 1-1 jafntefli í Faxaflóamótinu í dag. Margrét Árnadóttir skoraði okkar mark á 2. mínútu.
 
Þetta var þriðji leikur okkar í mótinu, en áður höfðum við mætti Stjörnunni og Aftureldingu. 
 
Það var frekar svalt í Hafnarfirðinum, en það kom þó ekki í veg fyrir að okkar stelpur væru snöggar í gang. Margrét Árnadóttir náði forystunni fyrir Þór/KA strax á 2. mínútu eftir stoðsendingu frá Vigdísi Eddu Friðriksdóttur.
 
Vigdís Edda var að spila sinn fyrsta leik með Þór/KA, en eins og fram kemur í annarri frétt hér á heimasíðunni samdi hún í dag við félagið til tveggja ára. Leikurinn í kvöld var einnig fyrsti leikur Brooke Lampe fyrir félagið. 
 
Haukar jöfnuðu í 1-1 þegar um fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þar við sat og niðurstaðan því jafntefli. 
 
 
Skiptingar voru alls konar og skráning skýrslunnar nær því aðeins yfir mörkin. Á henni má líka sjá aðeins 10 leikmenn í byrjunarliðinu hjá okkar - ástæðan er að sú ellefta, Brooke Lampe, er ekki komin inn í kerfið hjá KSÍ, enda nýkomin til landsins.
 
Sex skiptingar voru gerðar í leikhléinu, en þá komu Harpa, Angela Mary, Sonja Björg, Amalía, Andrea Mist og Hulda Björg inn, en út fóru Sara Mjöll, Margrét, Saga Líf, Unnur, Una Móeiður og Brooke. Þegar um 70 mínútur voru liðnar kom svo Krista Dís inn fyrir Vigdísi Eddu.

Afturelding tryggði sér sigur í mótinu

Á sama tíma og við spiluðum í Hafnarfirðinum mættust Stjarnan og Afturelding í Garðabænum. Gestirnir úr Mosó höfðu sigur og unnu alla leiki sína í mótinu. 
 
Lokaleikur okkar verður gegn Keflavík í Reykjaneshöllinni kl. 13 sunnudaginn 6. febrúar. Með sigri þar myndi Þór/KA enda í 2. sæti mótsins, en jafntefli eða tap myndi þýða að Keflavík endaði í 2. sætinu og við í því þriðja.