María Gros besti nýliðinn hjá Linköping

María Ólafsdóttir Gros ásamt fulltrúum félagsins fyrir leik Linköping og Kristianstad í gær. Myndin …
María Ólafsdóttir Gros ásamt fulltrúum félagsins fyrir leik Linköping og Kristianstad í gær. Myndin er af Facebook-síðu Linköping FC.

María Catharina Ólafsdóttir Gros var heiðruð af félagi sínu í sænsku úrvalsdeildinni, Linköping FC, fyrir síðasta heimaleik liðsins í deildinni í gær. Hún var valin rísandi stjarna félagsins, eða besti nýliðinn, á tímabilinu sem nú er rétt ólokið. María hlaut að launum tíu þúsund sænskar krónur.

Í frétt á Facebook-síðu sænska félagsins segir að hún sé óslípaður demantur sem hafi spilað á Íslandi, í Skotlandi og í Hollandi áður en hún samdi við Linköping FC sumarið 2024. Hún hafi síðan þá verið á stöðugri uppleið og fyrir hana skipti ekki máli hvort hún spili á hægri eða vinstri kantinum, þessi spræki og hugmyndaríki kantmaður sé jafn óútreiknanleg fyrir andstæðingana og Eyjafjallajökull er fyrir flugumferð yfir Íslandi og Norðurlöndunum.

Í umfjöllun félagsins segir einnig:

„Það er engin tilviljun að María sé að fá þessi verðlaun. Þau eru ávöxtur erfiðis hennar á hverjum degi, þrotlauss sigurvilja hennar og óbilandi drifkrafts til að vera stöðugt að bæta sig. Hún setur há viðmið, bæði á sjálfa sig og aðra, og með ákveðni sinni á hún alla möguleika á að komast á toppinn. Framtíðin er björt fyrir þennan hæfileikaríka leikmann sem mun án efa skila henni árangri, bæði með félagsliði og á landsliðsvettvangi, óháð því hvorn þjóðarlitinn hún velur.“

Þarna er vísað til þess að María á íslenskan föður og sænska móður og væri því lögleg með landsliðum beggja landana ef hún kysi svo.

Mark og stoðsending í leiknum

Hún sannaði svo að hún væri verð þessara verðlauna með frábærri frammistöðu í leiknum. Linköping lenti 0-2 undir, en María minnkaði muninn í 1-2 og átti svo stoðsendingu í jöfnunarmarki Linköping, en leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

Fyrir leikinn í gær var reyndar ljóst að Linköping væri fallið úr Damallsvenskan, sænsku úrvalsdeildinni. Fyrir umferðina átti Linköping enn veika von um að komast upp í 12. sætið, þriðja neðsta sæti deildarinnar, og fara í umspil um áframhaldandi veru í deildinni. Liðið í 12. sætinu, Rosengård, vann hins vegar sinn leik í næstsíðustu umferðinni á laugardag og fór í 22 stig, en Linköping var með 15 stig og gat mest komist í 21 ef liðið hefði unnið í gær og svo leikinn sem eftir er í lokaumferðinni. Fall úr úrvalsdeildinni varð því miður hlutskipti Maríu og liðsfélaga hennar. 

Einni umferð er ólokið í deildinni, en ljóst hvaða lið verður sænskur meistari og hvaða lið falla. BK Häcken hefur þegar tryggt sér titilinn, en Alingsås IF er í neðsta sætinu með níu stig. Linköping er með 16 stig í 13. sæti og næst þar fyrir ofan eru Rosengård með 22 og Brommapojkarna með 23.

Byrjunarlið Linköping FC í leiknum gegn Kristianstad IF í gær. María fyrir miðju í fremri röð. Myndin er af Facebook-síðu félagsins.

Spilaði alla leikina

María hefur verið fastamaður í byrjunarliði Linköping og iðulega spilað 90 mínútur. Hún hefur spilað alla 25 leiki liðsins í deildinni, skorað sjö mörk og átt þrjár stoðsendingar.
Hún hefur spilað yfir 130 deildarleiki í efstu deildum á Íslandi, í Skotlandi, Hollandi og nú í Svíþjóð og yfir 150 meistaraflokksleiki samanlagt fyrir Þór/KA, Celtic FC, Fortuna Sittard og Linköping FC.

María var í október í fyrsta skipti valin í A-landsliðshóp Íslands, eins og fjallað var um í viðtali og umfjöllun um hana hér á vefnum fyrr í vetur. Í umfjöllun og viðtali við Maríu hér á vefnum fyrir landsleikina tvo þegar hún var í fyrsta skipti í A-landsliðshópnum sagðist hún ætla að hugsa um framtíðina þegar þar að kæmi, eftir 16. október, þegar deildarkeppninni lyki. Fram að því væri einbeitingin á að gera sitt besta fyrir liðið og berjast fyrir veru þess í efstu deild.