Verðlaunahafar á lokahófi félagsins

Þór/KA hélt lokahóf sitt á föstudagskvöld þar sem leikmenn, þjálfarar, stjórn og sjálfboðaliðar komu saman og fögnuðu lífinu. Hófið var með hefðbundnum hætti, ljúffengum mat, skemmtiatriðum og verðlaunaafhendingum. 

Verðlaunahafar

  • Besti leikmaður: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir
  • Efnilegasti leikmaður: Bríet Fjóla Bjarnadóttir
  • Leikmaður leikmannanna: Margrét Árnadóttir
  • Kollubikarinn: Margrét Árnadóttir

 

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir er aðeins tvítug að aldri, en engu að síður orðin lykilmaður í liði Þórs/KA. Hún hefur aðallega spilað sem aftasti miðjumaður og þannig verið sterkur hlekkur í uppspili liðsins sem og í varnarleiknum, leikin og áræðin, baráttuglöð, útsjónarsöm og gefst aldrei upp. Mikilvægi hennar á miðjunni hefur ef til vill komið best í ljós þegar hún hefur þurft að leysa aðrar stöður, farið í bakvarðar- eða miðvarðarstöðu þegar meiðsli eða annað hefur kallað á tilfærslur.

Kimberley Dóra spilaði allar mínútur í öllum leikjum liðsins í Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum þetta árið, samtals 23 leiki, auk þess að spila sex leiki af sjö í Lengjubikarnum þar sem liðið fór alla leið í úrslitaleikinn. Hún á að baki 117 leiki í meistaraflokki, þar af 108 fyrir Þór/KA, en hún lék einnig níu leiki fyrir Hamrana í 2. deild og bikarkeppni 2020. Mörkin í meistaraflokki eru samtals orðin níu, þar af fjögur í efstu deild. Hún hefur að auki spilað 19 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Bríet Fjóla Bjarnadóttir er á meðal efnilegustu leikmanna landsins, fædd 2010 en hefur nú þegar komið við sögu í 46 leikjum í meistaraflokki með Þór/KA, þar af 32 leikjum í efstu deild þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Þá á hún einnig að baki tíu landsleiki með yngri landsliðum Íslands og eiga þeir eflaust eftir að verða fleiri.

Bríet Fjóla er þroskaður leikmaður miðað við aldur. Hún er einstaklega hæfileikarík knattspyrnukona og leggur sig fram við að bæta sig og þroska sig sem leikmann. Hún hefur spilað fremst á miðjunni eða sem kantmaður og gefur eldri og reyndari leikmönnum ekkert eftir, hefur gott auga fyrir sóknarleik og samspili og nösk á að finna réttu sendingarnar á samherja til að skapa hættu við mark andstæðinganna, en hefur svo einnig frábæra spyrnuhæfileika sjálf og hefur raðað inn mörkum með yngri flokkum félagsins á undanförnum árum.

Bríet Fjóla kom við sögu í 17 leikjum í Bestu deildinni í sumar, tveimur bikarleikjum og sex leikjum í Lengjubikar, og skoraði fjögur mörk. Þá spilaði hún einnig níu leiki með U20 liði félagsins og skoraði sjö mörk með liðinu. 

Margrét Árnadóttir var valin leikmaður leikmannanna í ár. Margrét hefur verið lykilleikmaður í liðinu á undanförnum árum, stjórnar sóknarleiknum á miðjunni, kröftug og ákveðin í sókn og vörn, hleypur endalaust og gefst aldrei upp. Hún var óheppin með meiðsli undir lok tímabilsins og missti af mikilvægum leikjum, en var að sjálfsögðu mætt á hliðarlínuna til að aðstoða þjálfarana og hjálpa liðinu. 

Margrét spilaði 15 leiki af 21 leik liðsins í Bestu deildinni. Hún skoraði sjálf eitt mark í Bestu deildinni, en átti fimm stoðsendingar og átti þátt í mörgum fleiri mörkum liðsins. Þá spilaði hún báða leiki liðsins í Mjólkurbikarnum, skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu. Hún spilaði alla sjö leiki liðsins í Lengjubikarnum, skoraði sjö mörk og átti eina stoðsendingu.

Nánar er fjallað um Margréti í sér frétt um Kollubikarinn.

Margrét Árnadóttir hlaut Kollubikarinn í ár. Fjallað er um Kollubikarinn í annarri frétt: