Aftur út í atvinnumennsku: Allt er þrítugri Söndru fært!
29.08.2025
Sandra María Jessen hefur verið kjörin Íþróttakona Akureyrar tvö ár í röð, 2023 og 2024, og íþróttakona Þórs þrjú ár í röð.
- - -
Sandra María Jessen hefur nú haldið út til Þýskalands á vit nýrra ævintýra, byrjuð að skrifa nýjan kafla í sögu sína sem atvinnumanneskja í knattspyrnu. Hún hefur nú leikið sinn síðasta leik fyrir Þór/KA í bili og tekur slaginn í þýsku Bundesligunni, þrítug og mögulega betri en nokkru sinni fyrr. Hér má líta lauslegt yfirlit um feril Söndru með Þór/KA.
Sandra María á að baki magnaðan feril með Þór/KA, tvo Íslandsmeistaratitla, tvisvar verið kjörin besti leikmaður deildarinnar, langmarkahæst í fyrra og jöfn annarri á toppi markalistans 2012, svo fáein atriði séu nefnd. Hér verður stiklað á stóru í tölum og fróðleik um feril hennar með liðinu, ásamt leikjafjölda og mörkum eftir árum. Neðst í fréttinni má svo finna tengla á myndbönd á YouTube með mörkum hennar fyrir Þór/KA 2017, 2018 og 2024.
2011-2018 og 2022-2025 - 267 meistaraflokksleikir með Þór/KA í Íslandsmóti, bikarkeppni, Meistarakeppni KSÍ, deildabikar og Meistaradeild Evrópu.
2011-2025 - yfir 300 meistaraflokksleikir samanlagt með félagsliðum, Þór/KA 2011-2018 og 2022-2025, Bayer 04 Leverkusen 2016 og 2019-2021 og Slavia Prag 2018.
2011-2025 - 121 mark í efstu deild á Íslandi, sem er félagsmet hjá Þór/KA og setur Söndru Maríu í 14. sæti yfir þær knattspyrnukonur sem skorað hafa mest í efstu deild hér á landi. Ítarlega var fjallað um ferilinn og mörkin í grein hér á thorka.is þegar Sandra María náði sínu 100. marki í efstu deild þann 15. júní 2024 gegn Stjörnunni í Garðabænum.
2025 - Það sem af er þessu ári hefur Sandra María spilað 14 leiki í Bestu deildinni og skorað í þeim tíu mörk. Að auki tvö mörk í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum og fimm mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum. Samtals hefur hún því spilað 21 leik fyrir Þór/KA á árinu og skorað 17 mörk, í KSÍ, mótum, auk leikja í æfingamóti KDN og Kjarnafæðis í byrjun árs. Landsleikirnir á árinu eru tíu og eiga vonandi eftir að verða fleiri því fram undan í haust eru umspilsleikir í Þjóðadeildinni.
2024 - 22 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni 2024, langmarkahæst og valin besti leikmaður deildarinnar í kosningu leikmanna.
2024 var Sandra María kjörin íþróttakona Akureyrar annað árið í röð, hún varð einnig hlutskörpust í kjörinu 2023. Hún var jafnframt Íþróttakona Þórs þriðja árið í röð, en hún hefur hlotið þann titil öll árin eftir að hún gekk aftur í raðir Þórs/KA. Árið 2023 deildi hún titlinum hjá Þór með körfuknattleikskonunni Maddie Sutton.
2024 - 47 leikir í fyrra. Samtals spilaði Sandra María 47 leiki á árinu 2024, þar af 32 keppnisleiki í KSÍ-mótum, níu landsleiki og sex leiki í æfingamóti á undirbúningstímabilinu. Hún skoraði alls 33 mörk í leikjum Þórs/KA í KSÍ-mótunum, 22 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni, tvö mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarkeppninni og níu mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum. Að auki átti hún tíu stoðsendingar í þessum 32 leikjum.
2017 sleit Sandra María fremra krossband í landsleik gegn Noregi á Algarve Cup í Portúgal, en var aftur klár í slaginn um miðjan maí, kom inn á sem varamaður í leik gegn Haukum 15. maí, KR 20. maí og ÍBV 25. maí og var í byrjunarliðinu gegn Stjörnunni 29. maí. Sama sumar var hún valin í EM hóp Íslands og fór með landsliðinu á EM í Hollandi í byrjun júlí. Sama ár var hún kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins í kosningu leikmanna.
2014 missti Sandra María að mestu af tímabilinu eftir að hún sleit krossband í leik gegn ÍBV í Lengjubikarnum 28. mars, en þá hafði hún náð fjórum leikjum í Lengjubikarnum og tveimur leikjum með U19 landsliði Íslands á árinu. Sléttum 11 mánuðum síðar, 28. febrúar 2015, var hún í byrjunarliði Þórs/KA gegn Selfossi í leik í Lengjubikarnum.
2012 - 18 mörk í 18 leikjum á sínu öðru ári með meistaraflokki í efstu deild. Tvær jafnar í 1.-2. sæti í fjölda marka í deildinni, en Sandra María fékk silfurskóinn þar sem hún hafði spilað fleiri mínútur en keppinauturinn, sem var Elín Metta Jensen.
19.03.2011 - Fyrsta innkoma í leik í meistaraflokki, í 1-1 jafntefli gegn Fylki í Egilshöllinni í A-deild Lengjubikarsins.
29.04.2011 - Kom inn á sem varamaður í leik gegn Val í Meistarakeppni KSÍ í Kórnum.
22.05.2011 - Fyrsti leikur í efstu deild, kom inn á sem varamaður í leik gegn Grindavík á Grindavíkurvelli.
01.06.2011 - Í fyrsta skipti í byrjunarliði í efstu deild, gegn Fylki á Þórsvellinum.
28.06.2011 - Fyrsta mark í efstu deild, á 17. mínútu í 4-2 sigri á Breiðabliki á Kópavogsvelli.
Sandra María var af leikmönnum Bestu deildarinnar kjörin besti leikmaður deildarinnar í fyrra, auk þess að verða markadrottning deildarinnar með 22 mörk í 23 leikjum. Mynd: Skapti Hallgrímsson / akureyri.net.
Leikjaferill Söndru Maríu með Þór/KA í grófum dráttum:
Leikir/mörk Söndru Maríu eftir árum
Íslandsmót og Meistara- keppni KSÍ
Bikarkeppni KSÍ
2025
14/10
2/2
2024
23/22
3/2
2023
19/8
1/0
2022
18/8
2/1
2019-2021*
2018**
18/14
1/0
2017
15/8
2/1
2016***
18/9
3/2
2015
18/13
2/2
2014
2013
14/9
4/3
2012
18/18
3/2
2011
16/2
1/0
Samtals
190/121
24/15
*Gekk til liðs við Bayer 04 Leverkusen í janúar 2019 og spilaði með liðinu í þýsku Bundesligunni þar til í desember 2020, þegar staðfest var að hún væri barnshafandi. Hún var samningsbundin félaginu þar til um mitt sumar 2021. Sandra María samdi síðan við Þór/KA í janúar 2022 og kom fyrst við sögu í leik með liðinu í Lengjubikarnum í byrjun mars sama ár.
**Spilaði á lánssamningi með Slavia Prag í efstu deild í Tékklandi frá miðjum febrúar fram í maíbyrjun 2018.
***Spilaði á lánssamningi með Bayer 04 Leverkusen í þýsku Bundesligunni frá byrjun frebrúar fram í byrjun maímánaðar 2016.
Auk ofantaldra leikja á Sandra María að baki 44 leiki (32 mörk) með Þór/KA í deildarbikarkeppnum og átta leiki og eitt mark í Meistaradeild Evrópu, einn leik 2011, tvo leiki 2013 og fimm leiki og eitt mark 2018. Þá eru ótaldir fjölmargir leikir í æfingamótum KDN og Kjarnafæðis sem haldin eru í byrjun hvers árs.
Mörk Söndru Maríu með Þór/KA 2024:
Mörk Söndru Maríu með Þór/KA tímabilin 2017 og 2018: