Stoltur og ánægður fyrir hennar hönd

Jóhann Kristinn Gunnarssson, þjálfari Þórs/KA. Mynd; Ármann Hinrik.
- - -
Jóhann Kristinn Gunnarssson, þjálfari Þórs/KA. Mynd; Ármann Hinrik.
- - -

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst stoltur og ánægður fyrir hönd Söndru Maríu sem nú er haldin á vit nýrra ævintýra. Jóhann hefur þjálfað Söndru Maríu í átta ár í meistaraflokki, fyrst þegar hann var ráðinn til félagsins haustið 2011 og stýrði liðinu í fimm tímabil og svo aftur frá því að hann kom aftur til starfa hjá Þór/KA haustið 2023. 

Um brotthvarf Söndru Maríu og verkefni hennar á nýjum vettvangi segir Jóhann: 

„Ég er stoltur og ánægður fyrir hönd Söndru að fá þetta stóra tækifæri. Þetta kemur ekki á óvart eftir frammistöðu hennar á vellinum með Þór/KA og landsliðinu undanfarin misseri. Sandra er stórkostlegur leikmaður sem hefur lagt mikið á sig að ná þangað sem hún er komin í dag. Frábær fyrirmynd og engin spurning að leikmenn sem alast hér upp og æfa í sama umhverfi og hún hefur gert horfa til hennar og hvað hún hefur gert. Sjá hvað hægt er að gera með metnaði, dugnaði og eljusemi.

Það er erfitt að horfa á eftir leikmanni sem maður hefur þjálfað í átta ár í meistaraflokki og hefur verið stór hluti af liði Þór/KA í langan tíma. Hæfileikar og framlag hennar á vellinum er óumdeilt en einnig það sem minna fer fyrir eins og aðstoð við aðra leikmenn utan vallar á ýmsan hátt. Sandra er frábær leiðtogi og hefur verið leikmönnum stoð og stytta í fótboltanum hér á Akureyri í langan tíma. Ég, þjálfarateymið og leikmenn eigum eðlilega eftir að sakna hennar mikið.

En á sama tíma verður að líta á þessi tímamót björtum augum. Viðurkenninguna fyrir hana sem leikmann, umhverfið sem hún hefur verið að æfa og bæta sig í undanfarið sem og tækifærin sem bíða hennar á nýjum vettvangi í atvinnumennskunni. Í metnaðarfullu umhverfi eins og hér hjá okkur tökum við fagnandi þeirri áskorun að þétta raðirnar og stíga upp í fjarveru hennar. Leikmenn stíga upp og sýna hvað í þeim býr. Við hlökkum til að fylgjast með Söndru með nýju liði og stöndum þétt við bakið á henni í nýjum ævintýrum. Við vitum einnig að hún gerir það sama og fylgist vel með okkur hér heima enda slær hjartað með hennar liði áfram þó hún færi sig um set í bili.

Ég vil nota tækifærið og óska Söndru Maríu til hamingju með frábæra uppskeru og stórt, verðskuldað skref á hennar glæsilega ferli. Við óskum henni alls hins besta og vitum að hún verður sér og okkur til sóma með nýju liði.“

Sjá einnig: