Sandra María Jessen semur við 1. FC Köln

Stjórn Þórs/KA hefur komist að samkomulagi við þýska knattspyrnufélagið 1. FC Köln, sem leikur í Bundesligunni, efstu deild þar í landi, um félagaskipti Söndru Maríu Jessen til þýska liðsins.

Sandra María hefur því spilað sinn síðasta leik fyrir Þór/KA í bili og færir félagið henni hér með bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag til liðsins, félagsins og knattspyrnunnar á Akureyri. Samningur Söndru Maríu við Kölnarliðið er til tveggja ára, eða út júní 2027, að því er fram kemur í tilkynningu 1. FC Köln á Instagram.

Ómetanlegt framlag innan og utan vallar

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, segir stjórn félagsins afar þakkláta fyrir framlag Söndru Maríu og fjölskyldu hennar til félagsins.

„Sandra María hefur verið lykilleikmaður Þórs/KA í gegnum árin og hefur framlag hennar verið ómetanlegt, bæði innan vallar og utan. Hún hefur verið fyrirmynd fyrir liðsfélaga og yngri leikmenn félagsins með fagmennsku, baráttuvilja og leiðtogahæfileikum og stjórn Þórs/KA er afar þakklát fyrir hennar framlag og fjölskyldu hennar,“ segir Dóra Sif og heldur áfram: „Á sama tíma og við munum sakna hennar þá er þetta jafnframt hvatning fyrir liðið okkar sem heldur áfram hér heima og sannar að með vinnusemi, hjarta og trú á sjálfan sig er allt hægt. Draumar rætast og baráttan á Akureyri með Þór/KA getur leitt leikmenn alla leið á stóra sviðið.“

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Sandra María Jessen í fyrrasumar þegar Sandra var heiðruð fyrir að hafa skorað 100 mörk í efstu deild Íslandsmótsins. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Sandra María hefur um áraraðir verið fyrirmynd annarra knattspyrnukvenna hér á Akureyri og víðar, jafnt hinna yngstu sem eru að stíga sín fyrstu spor, sem og þeirra sem æfa upp yngri flokkana og eygja von um sæti í meistaraflokki, en ekki síður liðsfélaga sinna hjá Þór/KA. Hún hefur með dugnaði, einurð og mikilli þrautseigju verið í fremstu röð hér á landi í áraraðir, komist í gegnum tvenn krossbandaslit og komið til baka eftir barnsburð, betri en nokkru sinni fyrr, bæði með Þór/KA og landsliði Íslands.

Sandra María ásamt foreldrum sínum, Rainer Lorenz Jessen og Jóhönnu K. Tryggvadóttur Jessen, og dótturinni Ellu Ylví Küster, þann 6. janúar á þessu ári þegar Sandra var kjörin íþróttakona Þórs þriðja árið í röð. Mynd: Ármann Hinrik.

Gekk hratt og vel fyrir sig

Samningur Söndru Maríu við Þór/KA gilti til 16. nóvember í ár, en þar sem keppnistímabilið í Þýskalandi hefst strax í byrjun september, fyrsti leikur Kölnarliðsins er heimaleikur gegn RB Leipzig, og félagaskiptaglugginn aðeins opinn til og með 31. ágúst sóttist þýska félagið eftir því að fá hana strax í sínar raðir. Að öðrum kosti hefði Sandra María ekki fengið leikheimild fyrr en eftir áramót og misst af fyrstu 14 umferðum Bundesligunnar, auk bikarleikja.

Viðræður milli félaganna gengu vel fyrir sig. Sandra María hélt utan til Kölnar á miðvikudag til að skoða aðstæður, ljúka viðræðum og gangast undir læknisskoðun og aðrar athuganir áður en samningar og félagaskipti yrðu endanlega staðfest.

Þau mál gengu öll eins og í sögu og hefur hún nú undirritað atvinnumannasamning við þýska félagið.

Leikmenn, þjálfarar og starfsfólk kvennaliðs 1. FC Köln áður en Sandra María gekk til liðs við félagið. Myndin er af vef félagsins

Stórt skarð að fylla, en mikil viðurkenning

Það er vissulega erfitt fyrir félagið að sjá á eftir Söndru Maríu úr okkar röðum og skilur hún eftir sig vandfyllt skarð enda hefur hún verið algjör lykilleikmaður í hópnum frá því hún snéri aftur á knattspyrnuvöllinn í upphafi árs 2022 eftir barnsburðarleyfi. Þessi vistaskipti Söndru Maríu núna eru augljóslega mikil viðurkenning fyrir hana sjálfa og alla þá vinnu sem hún hefur lagt á sig til að vera í toppstandi og í fremstu röð með félagi sínu og landsliði, en ekki síður fyrir það starf sem unnið er hjá Þór/KA.

Sjá ummæli Jóhanns Kristins Gunnarssonar, þjálfara Þórs/KA, í annarri frétt:

Það er afar ánægjulegt fyrir þjálfarateymi Þórs/KA og félagið allt að starfið hér skili sér í tækifærum fyrir knattspyrnukonur héðan til að fara út í atvinnumennsku. Tækifæri eins og Söndru Maríu býðst nú er ekki sjálfgefið.

Sandra María varð þrítug í janúar og heldur nú utan í atvinnumennskuna í annað sinn, en eftir átta ára feril með meistaraflokki Þórs/KA samdi hún við þýska félagið Bayer 04 Leverkusen og hélt utan í ársbyrjun 2019. Áður hafði hún farið á lánssamningi í stuttan tíma til Leverkusen snemma árs 2016 og Slavia Prag í Tékklandi snemma árs 2018.

Til gamans má geta þess að á meðal leikmanna Kölnarliðsins er miðjumaðurinn Taylor Ziemer, sem lék með Breiðabliki 2021-2023.

Sandra María Jessen með boltann í leik Þórs/KA og Breiðabliks í Boganum 16. maí 2023. Taylor Ziemer, miðjumaður Breiðabliks, er við öllu búin. Þær vissu það ekki þá, en rúmum tveimur árum síðar urðu þær liðsfélagar hjá 1. FC Köln í Þýsklandi. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Kölnarliðið endaði í 10. sæti Bundesligunnar síðastliðið vor, en 12 lið spila í deildinni. Annað liðið sem féll úr deildinni var hið sögufræga félag Turbine Potsdam, sem Þór/KA mætti í Meistaradeild Evrópu 2011. Sandra María var í byrjunarliðinu í heimaleik Þórs/KA 2011, en var ekki með í útileiknum vegna landsliðsverkefnis.

Gera má ráð fyrir að Sandra María sé fengin til félagsins í þeim tilgangi að bæta í markaskorunina, en á síðastliðnu tímabili skoraði liðið 18 mörk í 22 leikjum í Bundesligunni.

Hér má sjá upplýsingar um leikjadagskrá Kölnarliðsins og leikmannahópinn:

Liðið undirbýr sig nú fyrir keppni í Bundesligunni, sem hefst eftir rúma viku, og vill svo skemmtilega til að í dag er á dagskrá æfingaleikur við hollenska liðið FC Utrecht kl. 13 að íslenskum tíma. Sandra María tekur þó ekki þátt í þeim leik. 

Kvennalið 1. FC Köln var stofnað 2009. Liðið spilar á Franz-Kremer-Stadion, sem byggður var 1971 og endurnýjaður 2005. Völlurinn rúmar tæplega 15.000 áhorfendur. Kvennaliðið deilir vellinum með varaliði karlanna og A og B ungmennaliðum félagsins.

Sandra María í leik gegn Val í Boganum 7. ágúst. Mynd: Ármann Hinrik.

Sandra María Jessen ásamt Nicole Bender-Rummler, íþróttastjóra félagsins, eftir undirskrift samningsins í morgun. Myndin er af Instagram-síðu félagsins.