Sandra María best, Amalía efnilegust

Verðlaunahafar 2023: Sandra María Jessen, Amalía Árnadóttir, Agnes Birta Stefánsdóttir og Tahnai Ann…
Verðlaunahafar 2023: Sandra María Jessen, Amalía Árnadóttir, Agnes Birta Stefánsdóttir og Tahnai Annis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
- - -

Lokahóf meistaraflokks Þórs/KA fór fram á laugardag, en lokaleikur liðsins var á útivelli gegn FH síðdegis á föstudag. Á lokahófinu fór fram hefðbundið uppgjör með þökkum, gjöfum og verðlaunaveitingum. 

Venjan hefur verið að halda sameiginlegt lokahóf fyrir meistaraflokk og 2. flokk og vissulega voru leikmenn úr 2. flokki U20 á lokahófinu því eins og fólk hefur líklega tekið eftir tefldi Þór/KA fram mörgum ungum leikmönnum í meistaraflokki á árinu.

Verðlaun voru veitt að venju, en þó aðeins í meistaraflokki. Það vill nefnilega svo ótrúlega til að lið 2. flokks U20, sem hefur tryggt sér sigur í A-deildinni og Íslandsmeistaratitilinn, á enn eftir að spila tvo leiki. Því miður hafa félög fengið mikinn slaka til að fresta leikjum ítrekað af því að ekki næst í lið, leikir stangast á við annað eða af öðrum ástæðum. Einnig voru margar úr 2. flokki fjarverandi vegna þess að með breyttu fyrirkomulagi á Bestu deildinni þar sem leikið er lengra fram á haustið hitti lokahófið á sömu helgi og menningarferð MA og leikmenn 2. flokks því einnig fjarverandi af þeirri ástæðu. Uppgjör 2. flokks verður því haldið síðar.

Fern leikmannaverðlaun voru veitt á lokahófinu. Sandra María Jessen var kjörin besti leikmaðurinn, Amalía Árnadóttir efnilegust og Tahnai Annis verðlaunuð sem leikmaður leikmannanna, liðsfélaginn. Stjórn Þórs/KA veitir Kollubikarinn í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur. Agnes Birta Stefánsdóttir fékk Kollubikarinn 2023. Nánar verður fjallað um afhendingu Kollubikarsins í sér frétt.

Lokahóf - myndaalbúm.


Besti leikmaður 2023: Sandra María Jessen. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.


Efnilegasti leikmaður 2023: Amalía Árnadóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.


Kollubikarinn 2023: Agnes Birta Stefánsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.


Leikmaður leikmannanna 2023: Tahnai Annis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.


Karen María Sigurgeirsdóttir og Dóra Sif Sigtryggsdsóttir formaður. Karen María fékk afhenta Þór/KA treyju fyrir 100 meistaraflokksleiki fyrir félagið, sbr. frétt fyrr í haust: Karen María komin með 100 leiki fyrir Þór/KA | Þór/KA (thorka.is)

Sandra María Jessen og Dóra Sif Sigtryggsdsóttir formaður. Sandra María fékk afhenta Þór/KA treyju fyrir 200 meistaraflokksleiki fyrir félagið, sbr. frétt fyrr í haust: Sandra María með 200 leiki fyrir Þór/KA | Þór/KA (thorka.is)