Þór/KA tekur á móti Fram í 15. umferð Bestu deildarinnar í dag. Flautað verður til leiks kl. 17 í Boganum. Athugið að aðalinngangur verður lokaður og ganga áhorfendur inn um miðjudyrnar eins og í fyrstu leikjum sumarsins.
Stjórn Þórs/KA hefur komist að samkomulagi við þýska knattspyrnufélagið 1. FC Köln, sem leikur í Bundesligunni, efstu deild þar í landi, um félagaskipti Söndru Maríu Jessen til þýska liðsins.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst stoltur og ánægður fyrir hönd Söndru Maríu sem nú er haldin á vit nýrra ævintýra. Jóhann hefur þjálfað Söndru Maríu í átta ár í meistaraflokki, fyrst þegar hann var ráðinn til félagsins haustið 2011 og stýrði liðinu í fimm tímabil og svo aftur frá því að hann kom aftur til starfa hjá Þór/KA haustið 2023.