Stjórn Þórs/KA semur við fimm nýja leikmenn

Birgitta Rún Finnbogadóttir, Elísa Bríet Björnsdóttir, María Dögg Jóhannesdóttir, Erin Fleury og All…
Birgitta Rún Finnbogadóttir, Elísa Bríet Björnsdóttir, María Dögg Jóhannesdóttir, Erin Fleury og Allie Augur hafa allar samið við Þór/KA og bætast í öflugan leikmannahóp okkar.
- - -

Þór/KA tilkynnir með mikilli ánægju að samið hefur verið við fimm nýja leikmenn sem ganga til liðs við félagið fyrir komandi tímabil.

Þrjár þeirra eru nú þegar komnar í okkar raðir, hafa æft og spilað með liðinu og eiga félögin aðeins eftir að uppfylla formsatriði vegna vistaskipta þeirra, en tvær bandarískar knattspyrnukonur koma til félagsins á næstu vikum.

Stjórn Þórs/KA treystir því að leyst verði úr málum varðandi afgreiðslu dvalarleyfa í góðu samstarfi íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda með hag íþróttahreyfingarinnar og íþróttafólksins sjálfs að leiðarljósi.

Þrjár frá Tindastóli

Fyrst ber að nefna að þrjár öflugar knattspyrnukonur hafa ákveðið að ganga til liðs við Þór/KA frá Tindastóli.

Tvær þær fyrrnefndu eru á meðal efnilegustu og mest spennandi ungu knattspyrnukonum landsins og hafa undanfarin ár verið í lykilhlutverkum í liði Tindastóls í Bestu deildinni. Báðar koma frá Skagaströnd, en hófu að leika með Tindastóli 2022. Þær eiga báðar að baki leiki með yngri landsliðum Íslands. Þær Birgitta Rún og Elísa Bríet voru báðar samningsbundnar Tindastóli og hafa félögin komist að samkomulagi um félagaskipti þeirra. María Dögg Jóhannesdóttir hefur einnig verið í lykilhlutverki í liði Tindastóls undanfarin ár, kemur þaðan með mikla reynslu, en hún var þó ekki samningsbundin félaginu.

Sýna Þór/KA mikið traust

Það er afar ánægjulegt þegar ungar knattspyrnukonur sem leita eftir nýjum vettvangi til að taka næstu skref á ferlinum ákveða að ganga til liðs við Þór/KA. Í því er fólgið mikið traust til okkar sem störfum fyrir félagið og því fögnum við. Þór/KA vill og á að vera vettvangur fyrir ungar knattspyrnukonur með stóra drauma, jafnt þær sem aldar eru upp hjá Akureyrarfélögunum og hjá öðrum félögum á Norðurlandi eða annars staðar.

Stjórn Þórs/KA og þjálfarateymi líta svo á að félagið hafi með þessum nýju leikmönnum og öðrum sem gengið hafa til liðs við félagið á undirbúningstímabilinu, ásamt þeim öfluga hópi sem fyrir er hjá félaginu, á að skipa breiðum og mjög áhugaverðum hópi knattspyrnukvenna, góðri blöndu af eldri og reyndari leikmönnum ásamt fjölda ungra, spennandi og efnilegra knattspyrnukvenna sem berjast munu um sæti í liðinu.

Tvær frá Bandaríkjunum

Þá hefur félagið einnig samið við tvær bandarískar knattspyrnukonur, markvörð og sóknarmann. Samningar hafa verið undirritaðir við þær og stendur yfir vinna við formsatriði sem þarf að uppfylla í umsóknarferlinu fyrir dvalar- og keppnisleyfi.

Stjórn Þórs/KA leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að íþróttahreyfingin og stjórnvöld vinni saman að því að skapa réttlátt, skilvirkt og hraðvirkt ferli í tengslum við umsóknir og veitingu dvalarleyfa fyrir íþróttafólk utan EES-svæðisins. Félagið semur við tvær bandarískar knattspyrnukonur í trausti þess að úr þeim málum verði leyst á farsælan og sanngjarnan hátt með hag íþróttahreyfingarinnar og íþróttafólksins sjálfs að leiðarljósi.

Gerum kröfu á okkur sjálf að vera í fremstu röð

Undirbúningstímabilið hefur gengið vel með nýjan aðalþjálfara, Aðalstein Jóhann Friðriksson, við stjórnvölinn og gefa þessar nýjustu viðbætur við hópinn tilefni til bjartsýni fyrir hönd félagsins til framtíðar. Það er ekkert launungarmál á Akureyri að gerðar eru kröfur til þess að Þór/KA eigi lið í fremstu röð og hafi á að skipa leikmannahópi sem hefur möguleika á að berjast um þá titla sem í boði eru hverju sinni.

Þór/KA hefur nú samið samtals við sjö nýja leikmenn á undirbúningstímabilinu, sem meðal annars er ætlað að fylla í skörð þeirra sem farnar eru frá síðasta tímabili.

  • Arna Sif Ásgrímsdóttir (1992) frá Val
  • Halla Bríet Kristjánsdóttir (2008) frá Völsungi
  • Birgitta Rún Finnbogadóttir (2008) frá Tindastóli
  • Elísa Bríet Björnsdóttir (2008) frá Tindastóli
  • María Dögg Jóhannesdóttir (2001) frá Tindastóli
  • Erin Fleury frá Auburn University í Texas
  • Allie Augur frá Georgetown University í Washington DC

Nánar er fjallað um hvern leikmann fyrir sig í aðskildum fréttum um hverja og eina og hægt að opna þær með því að smella á nöfn knattspyrnukvennanna fimm sem nú hafa bæst í okkar öfluga hóp.